Orkumálinn 2024

Veisluhöldum linnir ekki á Borgarfirði eystra

„Þetta er orðin dálítið góð törn hjá okkur hér en við hendum í eina veislu enn og þar er fyrirmyndin gamla Álfaborgarséns-hátíðin,“ segir Ásgrímur Ingi Arngrímsson, einn forsprakkanna í Fjarðarborg á Borgarfirði eystra.

Þar virðast menn ekki kunna sér hóf í skemmtanahaldi því um helgina alla skal blásið í enn eina veisluna á staðnum og það þriggja daga partí í Fjarðarborg og þar verður hagyrðingamót með hinum þekkta sjónvarpsmanni Gísla Einarssyni á föstudagskvöldinu stærsti viðburðurinn.

Segja má að allan þennan mánuð hafi verið veisluhöld í firðinum því vart hefur liðið dagur á milli viðburða. Þeim stærsta, Bræðslunni, rétt nýlokið þegar skreyta skal borð fyrir sérstaka Verslunarmannahelgarhátíð. Ásgrímur, sem hefur ásamt fleirum staðið vaktina meira og minna allan tímann viðurkennir að þetta sé að verða gott.

„Svo sannarlega. Við erum reyndar öll hér stolt af því að hafa getað haldið flotta viðburði margar vikur í röð en slíkt er ekkert sjálfgefið á svo litlum stað sem þessum. En okkur langaði að bæta aðeins við um þessa stóru helgi og nú er þriggja daga veisla framundan á ný.“

Að frátöldu hagyrðingamótinu á föstudagskvöld verður dúkað fyrir sérstakt kótilettuhlaðborð það sama kvöld og á laugardagskvöld skal bætt um betur og boðið upp á „svínslegt“ veisluhlaðborð að hætti Já Sæll sem rekur veisluþjónustuna í Fjarðarborg. Það kvöldið verður sérstakt ABBA-þema í salnum. Ljúka skal helginni með tónleikum þar sem Stebbi Jak og Hafþór Valur spila fyrir gesti.

Hátíð í bæ enn og aftur. Fjarðarborg verður miðpunktur góðrar veislu um þessa helgi sem margar þær fyrri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.