Var að flýta sér á Hólmahálsinum

Par frá Egilsstöðum eignaðist sitt fjórða barn á aðeins öðrum stað en það bjóst við í síðustu viku. Nánar tiltekið á bílastæðinu á Hólmahálsi milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Litlu stúlkunni lá það mikið á að foreldrunum gafst ekki tími til að komast á sjúkrahúsið í Neskaupstað.

Foreldrarnir heita Hörður Kristjánsson og Ólöf Ísaksdóttir. Fæðingin gekk töluvert hraðar heldur en þau áttu von á.

„Þetta byrjar þannig að við vorum heima að horfa á Veðurfréttirnar á sunnudagskvöldið fyrir viku, þann 26. apríl. Ólöf var þá komin af stað að einhverju leyti og við vorum að velta fyrir okkur hvort við ættum að fara niður eftir.

Við eigum þrjú önnur börn og reynsla okkar er sú að það taki 14-16 tíma frá fyrstu verkjum þar til barnið er komið. Við vildum því ekki bara að búa til neitt vesen,“ segir Hörður.

„Við fórum að sofa rétt upp úr klukkan tíu. Um hálf tvö leytið vekur Ólöf mig, þá eru verkirnir orðnir mjög miklir. Við leggjum af stað um tíu mínútur yfir tvö, þá er afinn kominn á staðinn til að passa.

Eftir því sem við förum lengra ágerast verkirnir. Þegar við komum á Reyðarfjörð segir Ólöf að hún komist sennilega ekki alla leið og ég reyni hughreysta hana með því að það sé ekki langt eftir.

Þegar við erum að skríða upp á Hólmahálsinn segir hún við mig að vatnið sé farið. Ég beygi inn á bílaplanið, stíg með símann og hringi í ljósmóðurina sem svarar þegar ég opna farþegahurðina.

Fyrsta vandamálið var að Ólöf átti erfitt með að fara úr buxunum, aðstaðan er ekki góð í framsætinu á litlum fólksbíl. Þegar það tekst er kominn kollur. Þrjátíu sekúndum síðar fæ ég barnið í fangið og rétti móðurinni það. Við ófum það inn í lopapeysu sem tengdamóðir mín prjónaði. Verkunin á peysunni er eftir því.

Síðan biðum við eftir sjúkrabílnum. Mér leið eins og hann væri klukkutíma á leiðinni þótt þetta væru örugglega ekki nema 5-7 mínútur. Síðan vorum við flutt á Norðfjörð og hún lá sængurleguna þar.“

Vanur að taka á móti lömbum og kálfum

Stúlkan var 17 merkur á þyngd og 51,5 sentímetrar að lengd er hún fæddist og heilsast vel. Hún er skráð fædd klukkan 2:45, aðfaranótt mánudagsins 27. apríl en það er tíminn sem var skráður á síma Harðar um hvenær hann hefði hringt í ljósmóðurina.

Hörður var hjá mæðgunum það sem eftir var nætur en fór síðan aftur upp í Egilsstaði til að hugsa um hin börnin. Hann fékk ekki að koma aftur á deildina á Norðfiðri vegna varúðarráðstafana út af Covid-19 faraldrinum. Þær fengu síðan að fara heim á fimmtudag.

Hörður og Ólöf vilja koma á þakklæti á framfæri til sjúkraflutninga- og heilbrigðisstarfsfólks. „Við fengum frábæra þjónustu. Þau eiga lof skilið,“ segir hann.

Hörður er alinn upp á Skriðufelli í Jökulsárhlíð og segir reynsluna úr búskapnum í æsku hafa komið sér vel. „Ég hef grínast með að það hafi komið sér vel að hafa verið í sauðburði og tekið á móti kálfum. Það var samt ekki mikið annað fyrir mig að gera en grípa, þetta gekk svo hratt.“

Stolt systkini með nýju systurina. Mynd: Úr einkasafniDemo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.