Vann 200 umhverfislistaverk á einum mánuði

Í dag opnar sýningin „Lava Poetry“ í gallerí Klaustri á Skriðuklaustri. Þar verða til sýnis myndir af verkum sænska listamannsins Karls Chilcotts sem eru afrakstur mánaðardvalar hans þar síðasta sumar. Karl nýtir sér efnivið í náttúrunni en skilur alltaf við svæðin eins og hann kemur að þeim.

„Hann dvaldi hjá okkur í fyrrasumar og vann þá að umhverfislistaverkum vítt og breitt. Hann náði að gera um 200 verk og mörg þeirra inni í Vatnajökulsþjóðgarði, inni við Snæfell en fór líka víðar, til dæmis norður að Kröflu,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar.

Karl vinnur verkin út frá þeim efnivið sem hann vinnur á náttúrunni og þeim formum sem náttúran blæs honum í brjóst. „Hann nýtir það sem er nærri hvort sem það eru steinar, fífustrá eða fjaðrir. Þegar hann er búinn að gera verkið og mynda það gengur hann frá öllu aftur einsog það var,“ útskýrir Skúli Björn.

Samhliða opnun sýningarinnar klukkan 16 í dag verða kynntar tvær ljósmyndabækur sem Karl og dóttir hans Christine hafa unnið saman. Eftir kynninguna verður gengið upp með Bessastaðaárgildi þar sem eru nokkur verk eftir Karl.

Karl hefur farið víða og gert umhverfislistaverk, hingað kom hann eftir að hafa unnið í Ölpunum í 2000 metra hæð og næsta haust stefnir hann til Svalbarða. Þá var hann á Skagaströnd árið 2013.

„Karl veltir mikið fyrir sér umhverfi- og umhverfismálum og verkin hans tala inn í það. Næsta bók hans verður samtal um hvernig hægt er að vinna inn í náttúruna og með náttúruna.“

Sumarhátíð UÍA hefst klukkan þrjú í dag á Egilsstöðum með púttmóti en síðar verður keppt í borðtennis. Áfram verður haldið á morgun þar sem fjölbreytt hreyfing verður í boði fyrir alla fjölskylduna, meðal annars strandblak, zúmba og fjallahjólreiðar. Hátíðinni lýkur á sunnudag með keppni í frjálsíþróttum.

Meiri íþróttir eru í boði, til dæmis Íslandsmótið í bogfimi utanhúss. Það verður haldið laugardag og sunnudag á gervigrasvellinum í Fellabæ.

Í Havarí í Berufirði verða í kvöld tónleikar með FM Belfast og Hermigervli. Í dag klukkan fjögur verður útijóga með Sigrúnu Höllu Unnarsdóttur.

Tónleikaröðin í Fjarðarborg á Borgarfirði heldur áfram á morgun þegar fram koma Austurvígstöðvarnar, Sárasótt og Reiðir ungir menn.

Fjölbreytt dagskrá er á bæjarhátíðinni Vopnaskaki á Vopnafirði sem hófst á miðvikudag. Henni lýkur á sunnudag með Bustarfellsdeginum milli 14 og 17. Þar verðar sýndar gamlar verkhefðir, prjónað, strokkað, spjallað auk þess sem góðgæti verður á boðstólum.

Þá verður árleg guðsþjónusta í útileikhúsinu í Selskógi klukkan 10:30 á sunnudag. Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir predikar og Torval Gjerde leikur á harmonikku.

Verk Karls Chilcotts „Flying Carpet“ eða „Fljúgandi teppi“ við Bessastaðaárgil.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.