Væri til að geta hreyft hluti með hugarorkunni

„Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á því að skipuleggja og þess vegna á starfið vel við mig. Ég elska þegar mikið er um að vera í kringum mig og bærinn fyllist af fólki, en þá skapast svo skemmtileg stemmning hjá okkur, ” segir Selja Janthong, framkvæmdastjóri Vopnaskaks sem fram fer á Vopnafirði um helgina. Selja er í yfirheyrslu vikunnar.Selja segir undirbúning hátíðarinnar hafa verið gefandi og lærdómsríkan. „Öll samskiptin við fólkið í kringum hátíðina og öll sam samtölin í gegnum síma hafa verið rosalega skemmtileg. Ég hef aldrei verið dugleg við að tala í síma við ókunnunga um eitthvað sem ég er óörugg með. Það er gaman að vita að það er ekkert alltaf skrímsli hinum megin við línuna,” segir Selja og hlær. Hér er hægt að lesa frétt um Vopnaskakið.


Fullt nafn: Selja Janthong

Aldur: 33

Starf: Skólaliði og núna framkvæmdastjóri Vopnaskaks

Maki: Sigurður Grétar Sigurðsson

Börn: Jasmín Líf Sigurðardóttir


Hvar liggja ræturnar og hvenær komst til Íslands? Ég er fædd í Thailandi og fluttist til Íslands þegar ég var sex ára, nánar tiltekið á Breiðdalsvík, þar sem ég var svo heppin að fá að alast upp.

Hver er þín fyrsta minning frá Íslandi? Sumarið og birtan allan sólarhringinn. Það ruglaði mig mikið. Og allir litlu hvítu krakkarnir.

Helsti munur á Íslandi og Tailandi? Hitinn, maturinn og fólkið.

Hver er þinn helsti kostur? Ég er vinur vina minna.

Hver er þinn helsti ókostur? Ég get orðið svolítið sár, en það er fljótt að líða hjá. Og svo elda ég líka alltof mikið af mat.

Draumastaður í heiminum? Fiji eyjar.

Settir þú þér einhver markmið fyrir árið? Já, ég ætlaði að vera jákvæðari, hugsa vel um sjálfa mig og fólkið í kringum mig. Og hugsa í lausnum, ekki vandamálum. Hefur gengið misvel, en þó.

Mesta undur veraldar? Má bara nefna eitt? Stonehenge og Donald Trump.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Væri til að geta hreyft hluti með hugarorkunni.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Egg, lime og Ava.

Besta bók sem þú hefur lesið? Erfitt að velja,það sem kemst fyrst upp í hugann eru bækurnar eftir Khaled Hosseini. Kite Runner og A Thousand splendid suns.

Sérðu eftir einhverju í lífinu? Gera það ekki allir, bara mismikið?

Hver er þín helsta fyrirmynd? Mamma mín auðvitað.

Hver eru þín helstu áhugamál? Elda, borða og ferðast.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Skúra. Ég veit það ekki. Hef aldrei pælt í því. 

Hvar sérðu þig eftir tíu ár? Þegar stórt er spurt! Vonandi bara sólarmegin í lífinu.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Hitler.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Hlýju og húmor.

Af hverju ætti fólk að kíkja á Vopnaskak? Vegna þess að dagskráin í ár er frábær. Og ég pantaði góða veðrið. Og ég verð á svæðinu með góða skapið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.