Uppskrift vikunnar: Æðislegir Vegan Dumplings

Í þessum vikulega lið ætla búsettir og brottfluttir Austfirðingar að deila með lesendum Austurfrétta sínum uppáhalds uppskriftum. Sú sem ríður á vaðið er leikkonan Birna Pétursdóttir með girnilega vegan dumplings. 

 

 

Birna ólst upp á Egilsstöðum og Austfirðingum og Íslendingum að góðu kunn. Auk þess að vera leikkona starfaði hún um árabil sem dagskrágerðakona N4 og í Landanum á RÚV. Undanfarin ár hefur hún leikið hjá Leikfélagi Akureyrar og með leikhópnum Umskiptingum sem hlaut tilnefningu til Grímuverðlaunanna árið 2018 sem Sproti ársins.

Birna ætlar að deila með okkur uppskrift af girnilegum vegan dumplings. 

Út með kjötið                                                      

Hún segir að ekki hafi verið erfitt að skipta yfir í vegan lífstílinn þó að tilhugsunin hafi verið það.

„Þetta snýst um ákveðna hugarfarsbreytingu og hálfgerða heimsspeki. Við hjónin hættum að borða kjöt fyrir tæpum 2 árum og erum að mestu leyti á plöntumiðuðu mataræði. Við höldum mjólkurvörum í lágmarki og borðum ekki dýr.

Hún er alin upp af matgæðingum við fjölbreyttan mat úr öllum áttum og hef alltaf stært mig af því að borða allt. 

„Svo er maðurinn minn alinn upp í sveit þar sem voru bæði kýr og kindur og kjöt í matinn á hverjum degi. Þannig að þetta grænkerabrask hjá okkur er í raun hálfgerð uppreisn og óvænt u-beyja. Þetta hafði verið að vefjast fyrir okkur lengi. 

Þau voru að gera allt þetta helsta; flokka, minnka vatnsnotkun, bílnotkun og plast en þau vissu að kjötið væri næsta skref en það vafðist fyrir þeim. 

Ekki svo flókin lífstílsbreyting

„Við héldum að þetta væri svo mikið mál. Svo um leið og við vorum byrjuð kom í ljós að þetta er ekkert mál og bara algjör snilld sem einfaldar hlutina. Við hættum að borða kjöt út af umhverfinu en nú höldum við áfram kjötlausum lífstíl af virðingu við dýr. Við höfum bara engan áhuga á því að borða dýr.

Ég skil vel að það að minnka kjötát sé risastórt skref fyrir marga, en ég hvet fólk til að prófa sig áfram. Möguleikarnir eru endalausir.

Uppskrift vikunnar: 

„Þetta er uppskrift að æðislegum dumplings sem ég geri stundum þegar ég hef nægan tíma. Þetta er svolítið föndur en vel þess virði,“ segir Birna.

Deigið:

1 1/2 bolli hveiti (220 g)  all-purpose flour

1/2 cup heitt vatn

Smá salt

Blandið öllu saman og hnoðið svo vel á borði. Stráið smá hveiti yfir og vefjið í plastfilmu/maíspoka, geymið í ísskáp í klukkutíma. Takið út, hnoðið og geymið það svo í hálftíma i viðbot i isskapnum.a

Fyllingin:

Hvítkálshaus

5 sveppir

Teskeið rifið engifer

Teskeið ferskur hvítlaukur

1 saxaður vorlaukur

1 tsk sesamolía

1/2 bolli Sesamfræ (mér finnst fallegt að nota bæði ljós og dökk ef fólk á bæði)

4 msk vatn

Skellið hvítkáli í matvinnsluvél og grófhakkið. Setjið smá salt saman við. Færið í aðra skàl og leyfið að standa.

Setjið sveppina ásamt engifer, hvítlauk, vorlauk í matvinnsluvélina og grófhakkið. 

Kreistið sem mest af vökvanum úr hvítkálshakkinu og blandið svo saman við sveppina. Hakkið saman ef vill. Saltið og piprið eftir smekk.

Nú byrjar föndrið..

Skiptið deiginu í 4 parta. Mótið lengju úr hverjum parti og skerið í 11 bita. Þrýstið hverjum bita niður og fletjið í litla hringlaga botna. Setjið fyllingu á hvern botn. Takið í kantana og kreistið saman til að loka.Ég mæli með því að fullklára sirka 6 bita í einni umferð og halda svo áfram í næstu 6 (til að forðast það að deigbitarnir þorni).

Setjið vatn í litla skál og sesamfræ í aðra.

Dýfið hverjum dumplingbotni fyrst í vatn og svo sesamfræ.

Hitið sesamolíu á pönnu og steikið dumplings á miðlungshita þar til botninn er orðinn smá brúnn. Hellið þá 1/2 bolla af vatni yfir allt saman, skellið loki á og leyfið að malla í sirka 5 mín þar til fyllingin inní er fullelduð.

Mér finnst fallegt og gott að dreifa smá ferskum vorlauk yfir og bera svo fram á pönnunni. Með þessu hef ég soyasósu (gott að setja smá sesamolíu, hvítlauk og engifer útí) og stundum chiliolíu..en það má prófa sig áfram með dýfur. 

Verði ykkur að góðu!

Ég skora á mömmu mína og besta kokkinn hana Ólöfu Sigríði Ragnarsdóttur að koma með næstu uppskrift.

 

Girnirlegir dumplings að hætti Birnu Pétursdóttur. Mynd: Birna Pétursdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.