Uppskerutími hjá LAust

Í sumar hafa 14 ungmenni verið starfandi við listsköpun á vegum Fljótsdalshéraðs og Fjarðabyggðar undir merkjum LAust. Nú líður að uppskerutíma starfsins og hefst hann með sérstakri hátíð í dag.

Emelía Antonsdóttir Crivello hefur verið verkefnastjóri skapandi sumarstarfa og er þetta í annað sinn sem hún heldur utan um verkefnið. „Þetta eru 14 ungmenni á aldrinum 16-25 ára sem starfa í 10 vikur í sumar. Þau vinna öll að einhverju leyti í báðum þessum sveitarfélögum sem standa að verkefninu nú, en svo fer þetta dálítið eftir verkefnum hvernig þetta dreifist. Það eru mjög margt sem þau eru að gera og fjölbreytt verkefni.“

Ráðið var í störfin á grundvelli auglýsingar og umsókna í vor. Umsækjendur þurftu að tilgreina hvaða verkefni þau hefðu hug á að takast á við og þar kennir ýmissa grasa. Síðan hafa einnig orðið til ný verkefni í samstarfi innan hópsins og önnur verkefni hafa þróast eins og gerist í listrænu ferli. Emelía segir að nú sé kominn sá tími þar sem að listafólkið kynni afrakstur vinnunnar í sumar.


Fjölbreyttur hópur listafólks

„Núna eru þau búin að vera við störf í 8 vikur og það er kominn tími á uppskeru. Aðalviðburðurinn, sjálf uppskeruhátíðin, fer fram í Sláturhúsinu á Egilsstöðum föstudaginn 31. júlí en allt sem verður sýnt þar fær einhverskonar framhaldslíf á fleiri viðburðum.“ Nýjustu vendingar vegna Covid-19 hafa líka sett strik í reikninginn og sú ákvörðun var tekin að hafa uppskeruhátíðina aðeins fyrir boðsgesti, en á laugardag mun hins vegar hluti afrakstursins sýndur aftur fyrir gesti og gangandi. Þá stóð til að endurtaka uppskeruhátíðina í Gallerí Kolfreyju á Fáskrúðsfirði, en af því getur ekki orðið. Hópurinn þarf því að laga sig að breyttum aðstæðum nú og hefur raunar þurft að gera það að einhverju leyti í allt sumar. Sumt af þessum breyttu aðstæðum koma utan frá, svo sem færri bæjarhátíðir og önnur röskun viðburðahalds, en líka innan úr hópnum sem er aðeins öðruvísi saman settur nú en var síðasta sumar.

„Þessar breytingar sem urðu, til dæmis þegar bæjarhátíðir og viðburðir duttu út, féllu reyndar nokkuð vel að því sem við vorum að spá í hvort sem er. Í fyrra voru nánast allir í hópnum sviðslistakrakkar og þau mynduðu hálfgerðan götuleikhúshóp. En markmiðið var alltaf að þessi skapandi sumarstörf yrðu meira í ætt við það sem þekkist í Kópavogi og Reykjavík, að þú sækir um ákveðið verkefni sem þú framkvæmir. Og ef að verkefnið sem sótt er um snýst ekki um götuleikhús þá er frekar óeðlilegt að það sé sett sú krafa á fólk að taka þátt í slíku, þegar það stefnir kannski að því að skrifa bók eða gera teiknimynd, eins og dæmi eru um hjá okkur í sumar.


Dýrmætt að fá þau heim í sumar

Hluti af starfinu í kringum listafólkið var að útvega því leiðbeinendur. Emelía sjálf var leiðbeinandi í sviðslistum og öðru því sem sóst var eftir. Viktoría Blöndal var ritlistarleiðbeinandi og fór yfir handritaskrif og öll skrif hópsins í víðu samhengi. Kvikmyndagerðarkonan Anna Karín Lárusdóttir leiðbeindi varðandi ýmsa þætti sem tengjast upptökum á efni og Davíð Antonsson Crivello, úr hljómsveitinni Kaleo, leiðbeindi varðandi tónlist. Auk þess kom starfsfólk sveitarfélaganna tveggja að með ýmsum hætti.

„Þessi umgjörð er rosalega dýrmæt og skiptir miklu máli. En það sem skiptir samt mestu máli eru krakkarnir sjálf. Þau koma héðan að austan en mörg þessi eldri eru flutt í burtu í nám og hafa sagt að þau hefðu líklega ekki komið aftur heim í sumar nema vegna þess að þau gátu sótt um þessi störf. Þannig að þetta er dýrmætt að því leyti.“


Sviðslist, myndlist, tónlist og margt fleira

Verkefnin sem listafólkið hefur unnið að eru fjölbreytt og hægt væri að eyða drjúgum tíma í að fjalla um hvert og eitt þeirra. Á uppskeruhátíðinni sjálfri verður hægt að fá nasasjón af þeim flestum, en sum verkefni hafa þegar verið sýnd og önnur verða frumsýnd í sinni endanlegu mynd á síðustu tveimur vikum starfstímans. Til að nefna nokkur verkefni þá settu þau Almar Blær Sigurjónsson og Bjartey Elín Hauksdóttir upp sviðsverk í Streitisvita við Breiðdalsvík og mun hægt að sjá upptökur frá því verkefni, auk þess sem þau hafa unnið gjörninga. Benjamín Fannar Árnason hefur unnið að myndabandi um heimabæ sinn Reyðarfjörð sem sýnt verður á hátíðinni, Bryndís Tinna Hugadóttir vann að vegglistaverki sem afhjúpað var nýverið á Eskifirði og María Rós Steindórsdóttir hefur unnið að gerð teiknimyndar eftir þjóðsögunni um selshaminn. Þá skrifaði Viktor Páll Magnússon bók sem komin er út og Ívar Andri Klausen og Júlíus Óli Jacobsen hafa samið tónlist saman og munu á hátíðinni halda tónleika með lögum sem eru afrakstur samstarfs þeirra í sumar.

„Ívar er frá Egilsstöðum en Júlíus er frá Neskaupstað og það sýnir í raun hversu dýrmætt það er að hafa þetta verkefni sameiginlegt. Þeir hefðu annars ekki getað verið saman í hóp og unnið saman. Þeir eru báðir í tónlistarskóla FÍH og settu sér það markmið í sumar að semja eitt lag á viku, sem þeir gerðu og leggja áherslu á djass og fönk.“


Gefandi starf en líka áskoranir

Hér að ofan er aðeins tæpt á hluta þess sem fram hefur farið í sumar og því listafólki sem verið hefur að störfum. Það sýnir í hnotskurn vandamál sem Emelía þekkir eiginlega of vel.

„Mér finnst svo leiðinlegt að þegar er svona mikið af verkefnum þá finnst manni hvert og eitt verkefni eiginlega ekki fá þá athygli sem það á skilið. En ég skora á sem flesta að kynna sér allt það sem þau hafa verið að gera og fylgjast vel með þeim sýningum sem verða núna á uppskerutímanum næstu tvær vikurnar.“

Það er áskorun að stjórna jafn víðfeðmu verkefni og því sem hér um ræðir og Emelía viðurkennir að það geti reynt á að reyna að stýra starfi listafólks, sem þarf á frelsinu að halda til að skapa nýja hluti.

„Það er erfitt. Þau stýra sinni listsköpun sjálf en þau þurfa stuðning þó það sé misjafnt hversu mikinn stuðning þau hafa þurft og viljað. Flækjustigið er talsvert, en við höfum samt rætt um að það getur líka verið gott því að leita lausna við áskorunum er kannski það sem býr til frelsið. Þau búa til dæmis í fimm bæjarfélögum og það að skipuleggja hvernig á að komast á milli, hvar á að hittast og hvenær, reynir á en er líka dýrmætt fyrir þau að læra af. Það er búið að vera óskaplega gaman að stýra þessu og vinna með þeim. Ég öfunda að vísu stundum hina leiðbeinendurna því þau geta einbeitt sér að listinni á meðan ég þarf að sinna allskonar öðrum og „leiðinlegri“ hlutum líka. En ég er mjög þakklát sveitarfélögunum fyrir traustið því þau hafa leyft mér að móta þetta starf eiginlega alveg frá grunni og ég hef fengið fullkomið frelsi til þess.“

 

Standandi f.v.: Anna Karín Lárusdóttir, Viktoría Blöndal og Davíð Antonsson Crivello leiðbeinendur. Jónatan Leó Þráinsson, Ívar Andri Klausen, Viktor Páll Magnússon, Almar Blær Sigurjónsson, María Jóngerð Gunnlaugsdóttir, Jón Axel Matthíasson, Bjartey Elín Hauksdóttir, Helgi Jónsson, Hildur Vaka Bjarnadóttir og Bryndís Tinna Hugadóttir. Sitjandi f.v.: Emelía Antonsdóttir Crivello verkefnastjóri, Mekkín Guðmundsdóttir, Benjamín Fannar Árnason, Júlíus Óli Jacobsen og María Rós Steindórsdóttir. Mynd: Aðsend/LAust

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.