Upprisu orgelsins fagnað í kvöld 

Í janúarmánuði fór fram gagnger hreinsun, viðgerð og stilling á pípuorgeli Egilsstaðakirkju og er það því orðið eins og nýtt. Verkið unnu þau Björgvin Tómasson orgelsmiður og kona hans, Margrét Erlingsdóttir rafvirki. Af því tilefni verður fagnað með orgel- og söngkvöldi í kirkjunni í kvöld, 5. mars kl. 20:00.

 

Orgelið kom í Egilsstaðakirkju haustið 1978, fjórum árum eftir vígslu kirkjunnar. „Mælt er með að orgel séu hreinsuð á 10-15 ára fresti til að viðhalda hljómgæðum sínum, en þetta orgel hefur aldrei farið í svona gagngera hreinsun áður, svo það var orðið afar aðkallandi,“ segir Þorgeir Arason sóknarprestur í Egilsstaðakirkju.

Hann segir aðdragandann að verkinu hafa verið nokkuð langan. Verk af þessu tagi er kostnaðarsamt fyrir lítinn söfnuð og þörf á mikilli og sérhæfðri vinnu. 

Á aðalsafnaðarfundi vorið 2018 var svo stofnaður Tónlistarsjóður kirkjunnar. Í henni sitja Björn Ingimarsson bæjarstjóri, Jarþrúður Ólafsdóttir kennsluráðgjafi og kórfélagi og Torvald Gjerde organisti í stjórn sjóðsins.

Í tilkynningu frá kirkjunni segir að var leitað hefi verið til einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka á svæðinu um að leggja verkefninu lið, auk annarra sókna í prestakallinu, en við Egilsstaðakirkju fara fram ýmsar athafnir og viðburðir sem þjóna stærra svæði en sókninni einni. 

„Svo komu kórar og hljómlistarmenn líka fram á tónlistarviðburðum þar sem aðgangseyrir og  frjáls framlög runnu til verkefnisins. Það er mjög ánægjulegt var að finna allan þann velvilja sem kirkjan og menningarlíf hennar nýtur í samfélaginu hér á Fljótsdalshéraði,“ segir Þorgeir.

Stærsti einstaki styrkurinn kom frá Kvenfélaginu Bláklukku á Egilsstöðum, kr. 500.000. Þrjú hótel á svæðinu styrktu verkefnið einnig í formi gistingar og uppihalds í viku í senn fyrir orgelsérfræðingana. 

„Alls söfnuðust um þrjár og hálf milljón í sjóðinn eða nánast allur kostnaður við verkið. Vilja stjórn sjóðsins og sóknarnefnd Egilsstaðakirkju koma á framfæri innilegu þakklæti sínu til allra þeirra sem lögðu verkefninu lið,“ segir einnig í tilkynningunni.

Þorgeir segir að Egilsstaðakirkja sé virkilega ánægð með afraksturinn af vinnu Björgvins og Margrétar. „Hljóðið í orgelinu er nú miklu tærara en áður, vélasuð horfið og ekki spillir að loftið í kirkjunni er hreinna og betra, enda allt að 40 ára gamalt ryk horfið úr hljóðfærinu.

Svo er gaman að segja frá því að Hermann Eiríksson trésmiður aðstoðaði Björgvin við hljóðeinangrun á mótor og blásara svo og við lagningu lagna upp í orgelið til að taka inn loft í það ofar en áður. En Hermann hefur sungið í Kór Egilsstaðakirkju frá því að kirkjan var vígð og var einmitt meðal lykilmanna í orgelkaupunum á sínum tíma.“

Til að fagna „upprisu“ hljóðfærisins bjóða Kór Egilsstaðakirkju og Torvald Gjerde organisti kirkjunnar til orgel- og söngkvölds í kirkjunni í kvöld, fimmtudaginn 5. mars kl. 20:00.  „Fjölbreytt tónlistardagskrá, samsöngur og kaffiveitingar í lokin. Allir velkomnir og frítt inn en frjáls framlög vel þegin því að enn vantar örlítið upp á að tekist hafi að safna fyrir öllum kostnaði við verkefnið,“ segir Þorgeir að lokum.

Orgelið fyrir hreinsun. Myndin er aðsend.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.