Unnu kökuskreytingakeppni Unglingalandsmóts: „Við elskum einhyrninga“ - Myndir

Liðið Prumpandi einhyrningar fór með sigur af hólmi í kökuskreytingum, en keppt var í þeim í fyrsta sinn á Unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum um helgina. Vinkonurnar í liðinu tóku einhyrningsþemað alla leið og mættu í búningum.


Liðið mynda þær Lísbet Eva Halldórsdóttir og María Sigurðardóttir frá Egilsstöðum en þær unnu í flokki 11-14 ára.

Greinin var síðasta grein mótsins. Keppt var í sal Egilsstaðaskóla. Upphaflega var gert ráð fyrir um 30 keppendum en skráningar urðu á annað hundrað áður en yfir lauk. Þess vegna þurfti meðal annars að skipta keppninni í tvo hópa.

Fjölmennt var í salnum því fjöldi áhugasamra gesta lagði leið sína í skólann til að fylgjast með keppninni.

Keppt var í parakeppni og einstaklings og aldursflokkunum 11-14 ára og 15-18 ára. Lísbet Eva og María voru í einhyrningsbúningum á meðan þær skreyttu kökuna en viðurkenndu eftir keppnina að þeim hefði verið orðið nokkuð heitt.

Þema keppninnar var gleði og var keppendum var lagt til hráefni, litaður og ólitaður sykurmassi, sælgæti og kökubotnar en þurftu sjálfir að koma með verkfæri og að hámarki þrjá óæta hluti til að skreyta kökuna.

Lísbet Eva og María komu með tvo einhyrninga sem stóðu við regnbogann í kökunni. „Við einfaldlega elskum einhyrninga,“ sögðu þær aðspurðar um hugmyndina að baki kökunni.

„Þeir eru svo sætir og litríkir. Að vera með eitthvað sem tengdist einhyrningum var hugmynd sem varð bara að veruleika.“

Harðsnúið lið dómara mat kökurnar eftir frumleika, listrænni tjáningu, litasamsetningum, útfærslu á þema og heildar útliti. Að verðlaunaafhendingu lokinni fengu þátttakendur að taka kökurnar með sér heim. „Við borðum hana örugglega, ef hægt er að skera hana.“

Ulm 2017 1641 Web
Ulm 2017 1642 Web
Ulm 2017 1643 Web
Ulm 2017 1646 Web
Ulm 2017 1649 Web
Ulm 2017 1650 Web
Ulm 2017 1654 Web
Ulm 2017 1657 Web
Ulm 2017 1661 Web
Ulm 2017 1662 Web
Ulm 2017 1665 Web
Ulm 2017 1667 Web
Ulm 2017 1672 Web
Ulm 2017 1673 Web
Ulm 2017 1674 Web
Ulm 2017 1677 Web
Ulm 2017 1679 Web
Ulm 2017 1681 Web
Ulm 2017 1683 Web
Ulm 2017 1684 Web
Ulm 2017 1685 Web
Ulm 2017 1687 Web

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar