Ungur steinasafnari fann tíkall frá árinu 1897

„Ég ætlaði að fara að selja steina en fannst þeir svo flottir að ég ætla ekki að gera það, bara að opna safn,“ segir Emil Halldórsson, sjö ára steinaáhugamaður sem opnaði steinasafn að Sellátrum við Eskifjörð í gær.



Emil er búsettur á Akureyri með foreldrum sínum Evu Sigurjónsdóttur og Halldóri Hermanni Jónssyni og yngri bróður sínum Patreki. Ræturnar liggja þó að hluta fyrir austan en Halldór er frá Neskaupstað þar sem foreldrar hans búa enn. Föðuramma Halldórs, Kristín Jónsdóttir, bjó á Sellátrum og þar dvelur fjölskyldan oft í fríum.

Eva, móðir Emils, segir hann hafa haft áhuga á steinum alla tíð. „Hann hefur farið með ömmu sinni og afa í fjallið að tína steina frá því hann var lítill, auk þess sem gríðarlegt magn af steinum er á Sellátrum sem fjölskyldan hefur tínt gegnum tíðina. Emil hefur skoðað þá frá því hann var pínu-pons og þykir þetta alveg ótrúlega skemmtilegt.

Við fórum svo í fjallgöngu í gær og fundum alveg fullt af steinum. Hann var að velta því fyrir sér að selja þá til að safna sér fyrir fótboltamóti sem hann er að fara á núna í ágúst. Þegar hann var svo búinn að skola af steinunum tímdi hann því ekki og ákvað frekar að búa til safn. Við fórum í Steinasafn Petru á Stöðvarfirði á mánudaginn og þar sá hann hugmynd sem gæti gengið, fyrst hún gat rekið safn og átt steinana sjálf þá gæti hann það líka. Hann var svo að dunda sér við þetta í allan gærdag, að setja safnið upp.“

„Þeir eru svo flottir og glansandi“
„Ég er búinn að safna steinum frá því ég var lítill, en þeir eru svo flottir og glansandi. Uppáhalds steinninn minn er Amethyst og ég á svoleiðis stein á safninu mínu.“

Safnið er sérdeilis glæsilegt. „Ég gerði skilti fyrir utan girðinguna. En það dettur alltaf niður á nóttunni svo það sér það enginn. Það eru blóm, lukt og lítið tréhús fyrir fugla sem ég fann í geymslunni, en ég geymi bara steina upp á því,“ segir Emil.

Fyrsti viðskiptavinurinn kom strax í gær. „Það var afi, hann er reyndar ekki gestur. Hann borgaði 1000 kall en það á bara að kosta 300 kall, en ég er samt ekki með posa,“ segir Emil sem er meira en tilbúinn til að taka á móti fleiri gestum. „Ég segi þeim svo bara hvað steinarnir heita þegar þau spyrja.“

Safnið er aðeins fjóra kílómetra frá Eskifirði og verður opið fram á föstudag þegar fjölskyldan er heima.

Fann tíkall frá árinu 1897
Segja má að Emil hafi stofnað sitt fyrsta fyrirtæki í gær en það er bara byrjunin; „Ég sá lítinn skúr sem er bara rétt fyrir utan Sellátra. Þegar ég verð stór ætla ég að tína fleiri steina og setja upp steinasafn í skúrnum.“

Emil veit einnig upp á hár hvað hann ætlar að gera að sínu aðalstarfi í framtíðinni. „Ég ætla að verða fornleifafræðingur, mér finnst það svo flott. Þeir fara í eyðimörkina og leita að einhverju sem hefur verið grafið ofan í sandinn.“ Hefur Emili fundið einhverjar fornleifar hingað til? „Já, heima hjá mér í runnanum, þar fann ég tíkall sem var grafinn ofan í moldina.“ Telur Emil að um fornleifar sé að ræða? „Já, ég las á hann og hann var frá árinu 1897.“

Steinasafn Emils 1000

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.