Unga fólkið þyrfti að taka meira af lýsi

Eskfirðingurinn Anna Hallgrímsdóttir segir það sitt mesta ríkidæmi að hafa eignast góða og stóra fjölskyldu. Hún segir lykilinn að langlífi og hreysti vera að taka inn lýsi.

„Ég held ég hafi verið óskaplega heppin í lífinu. Ég eignaðist góðan eiginmann og þrjú börn,“ segir Ann en hún var heimsótt í þættinum Að austan á sjónvarpsstöðinni N4 nýverið.

Anna er fædd 7. ágúst árið 1917 á Helgustöðum, bænum sem hin fræga silfurbergsnáma er kennd við. „Allt það silfurberg sem var tekið og sent til Frakklands var metið heima,“ rifjar hún upp.

Hún var aðeins sex ára gömul þegar faðir hennar fórst í sjóslysi og móðir hennar flutti ein með sex börn á aldrinum frá tíu ára niður í sex mánaða til Eskifjarðar. Þar hefur Anna búið síðan en hún dvelur nú á hjúkrunarheimilinu Hulduhlíð.

Börnin þurftu snemma að fara að vinna til að styrkja heimilið. „Ég vann fyrir það sem lá. Við vorum í síld og beitingu þegar við uxum úr grasi.

Vinnubrögðin eru orðin allt önnur. Menn eru betur staddir að því leyti að nú eru allir menntaðir. Því miður voru engin tök á því þá. Maður lærði bara það sem nauðsyn þótti.“

Anna fagnaði 100 ára afmæli sínu í ágúst 2017. „Ég fékk heilmikið af gjöfum en mest gaman þótti mér að fá allt þetta kunningjafólk í heimsókn. Það komu 160 manns alls staðar að.“

Anna giftist Einari Kristjánssyni og saman eignuðust þau þrjú börn. Afkomendurnir í dag eru orðnir fleiri en fimmtíu. „Ég er svo heppin að eiga mikið af fólki í kringum mig. Börnin eru voða góð og þau koma og heimsækja mig sem geta,“ segir Anna.

En hver er galdurinn að langlífi og hreysti. „Ég hef alltaf tekið inn lýsi og geri enn. Ég held að það sé eitt af því sem unga fólkið þyrfti að gera meira af.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.