Umslagið varð til áratug fyrir útgáfu geisladisksins

„Það hefur lengi staðið til að gera plötu og koma einhverju af mínu efni frá mér á varanlegan hátt,“ segir Stöðfirski tónlistarmaðurinn Garðar Harðar, en hann var að gefa frá sér geisladiskinn Tónaljóð.


„Anna Hrefnudóttir kona mín teiknaði og hannaði plötuumslagið fyrir áratug eða meira og síðan þá hef ég verið að spá í hvaða tónlist ætti að vera á plötunni, en hún átti að innihalda eigin ljóð enda er titill plötunnar Tónaljóð. Ég er búinn að gera nokkur drög að þessu síðustu árin en hófst svo handa í vetur við að klára þetta. Þetta er svona frekar hæversk órafmögnuð tónlist við ljóðin mín.

Er þetta fyrsta platan sem Garðar sendir frá sér undir sínu nafni en lögin hans liggja þó víða. „Árið 1982 gáfum við félagarnir í hljómsveitinni Bismarck á Stöðvarfirði út LP plötuna „Ef vill“, en þar var öll tónlist og textar eftir mig utan eitt lag. Það hefur einnig komið út eftir mig tónlist á plötum annarra listamanna.

Ég á mikið magn af tónlist af ýmsum toga bæði djassskotinni tónlist, en einnig popp, rokk og blústónlist. Ég hef hugsað mér að halda áfram að vinna í henni og hugsanlega gefa eitthvað meira út,“ segir Garðar, en sonur hans, Hilmar Garðarson, gaf einmitt út plötu fyrr á þessu ári.

Platan verður til sölu hjá Garðari sjálfum, í Salthúsmarkaðinum á Stöðvarfirði og Brekkunni.

 

Garðar Harðar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.