„Um samskipti fólks eins og öll önnur leikrit“

Freyvangsleikhúsið í Eyjafirði frumsýnir í kvöld leikritið Smán, nýtt verk eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur frá Egilsstöðum. Hún kveðst hlakka til að sjá uppsetninguna á verkinu sem hún hefur unnið að með hléum í tæp tuttugu ár.

„Ég skrifaði fyrstu textana í þessu leikriti í Frakklandi 2002, á ensku. Var eitthvað að vesenast með þá á námskeiði fyrir evrópsk ungleikskáld um sumarið. Skrifaði það svo meira í smiðju í Allahies á Írlandi 2004. Síðan þiðnaði þetta yfir á íslensku,“ segir Sigríður Lára.

Hún bætir við að nokkuð endanleg mynd hafi komist á verkið á námskeið 2009 en síðan hafi það verið betrumbætt í háskólaáföngum auk þess sem endinum hafi verið breytt nokkrum sinnum.

„Ég sendi þetta inn í leikritasamkeppni hjá Freyvangsleikhúsinu 2019 og þetta átti að fara á svið einhvern tíman í Covid-faraldrinum. Þau voru langt komin með leikmyndina fyrir löngu,“ segir Sigríður Lára.

Smán, sem er áttunda leikverk Sigríðar Láru í fullri lengd, gerist á einni helgi á öldurhúsi. „Það er þægilegt að segja að það sé um samskipti fólks, því öll leikverk eru það. Þarna eru fastagestir og milli þeirra alls konar tengsl og tengslaraskanir. Það er dálítið drama í því en samt fyndið,“ segir Sigríður Lára.

Freyvangsleikhúsið er kennt við samnefnt félagsheimili í Eyjafjarðarsveit. Sigríður Lára lýsir því sem einu öflugasta áhugaleikfélagi landsins sem í gegnum tíðina hafi alið af sér öflugt fólk í öllu því sem viðkomi uppsetningu leikrita. Sigríður Lára hefur því verið róleg eystra meðan Eyfirðingarnir hafa sett upp verkið.

„Ég gaf leikstjóranum frjálsar hendur því það er skemmtilegast. Síðan mætir maður á frumsýninguna í sparifötunum. Til þessa hef ég mest fylgst með þeim í gegnum Facebook og þetta virðist hafa verið skemmtilegt ferli. Þess vegna hlakka ég til í kvöld.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.