Tyrkjaránið safaríkur hluti af sögu Austurlands

Sagnfræðingur telur Austfirðinga eiga tækifæri í að gera sögu Tyrkjaránsins á svæðinu hærra undir höfði. Yfir 100 manns voru numin burtu af svæðinu en aðrir sluppu með að felast í Austfjarðaþokunni.

„Ef þú spyrð fólk úti á götu hvað það viti um Tyrkjaránið þá nefnir það Vestmannaeyjar og Tyrkja-Guddi, einhverjir muna eftir Bessastöðum og Grindavík. Mig grunar hins vegar að fæstir viti að fólki var líka rænt í stórum stíl fyrir austan – og það svæði varð líklega hlutfallslega verst úti,“ segir Stefán Pálsson, sagnfræðingur.

Stefán Pálsson skrifaði í vikunni stöðuuppfærslu á Facebook hann sem hann brýndi Austfirðinga til að merkja sér þennan hluta Íslandsögunnar á áberandi hátt, líkt og gert hafi verið glæsilega á Fáskrúðsfirði með veiðar Frakka.

„Tyrkjaránið er mjög safaríkur hluti af Íslandssögunni. Þarna eru sjóræningjar ræna fólki og flytja það nauðugt til suðrænna landa. Það er líka góð frásögn að fólk hafi falið sig í Austfjarðaþokunni. Menn eiga ekki að taka því þegjandi fyrir austan að Tyrkjaránið sé tekið af þeim.“

110 herteknir, níu drepnir

Tyrkjaránin svokölluðu áttu sér stað sumarið 1627. Samkvæmt grein á Vísindavef Háskóla Íslands, eftir Þorstein Helgason sem mun vera helsti sérfræðingur Íslands um Tyrkjaránin, komu sjóræningjarnir í tveimur hópum, sá fyrri frá Sala í Marokkó rétt fyrir Jónsmessu, sá seinni frá Algeirsborg hálfum mánuði síðar.

Fyrri hópurinn kom við á suðvesturhorninu, en sá seinni fór um á Austfjörðum 5. – 13. júlí. Hópurinn kom á tveimur bátum og tóku land við Hvalnes. Enginn var þar heima og létu ræningjarnir þar greipar sópa áður en þeir siglu inn á Berufjörð vörpuðu akkerum við Berunes. Þeir réru á árabátum yfir að verslunarhöfninni á Djúpavogi þar sem danskt kaupskip lá. Ræningjarnir náðu því áður en þeir umkringdu kaupmannshúsin og ruddust þar inn. Á þessum stöðum náðu þeir 14 Dani og einn Íslending.

Næst var farið inn með Hamarsfirði og Berufirði beggja vegna. Víða komu ræningjarnir fólki að óvörum og tóku það höndum. Sagt er frá einum pilti sem slapp undan og náði að vara fólk á nokkrum bæjum við, en öðrum bjargaði Austfjarðaþokan. Alls er áætlað að ræningjarnir hafi hertekið 110 manns í Berufirði, Hamarsfirði og Breiðdal og níu voru drepnir.

Þegar komið var að Fáskrúðsfirði voru allir flúnir og sagt að mótvindur hafi hindrað frekari för ræningjanna norður með Austfjörðum. Í staðinn fóru þeir suður með landinu og rændu 234 í Vestmannaeyjum.

Ferðamenn á flótta

Stefán telur að hlutfallslega hafi Austfirðingar farið verst út úr ránunum. „Maður ímyndar sér að þar hafi verið hvað mesta strjálbýlið.“ Aðspurður um hvers vegna tening ránsins við Vestmannaeyjar sé svona sterk bendir Stefán á að Eyjamenn hafi varðveitt sína sögu vel og hampað henni. Þaðan séu einnig mjög hrollvekjandi lýsingar af drápum og átökum.

Stefán segist ekki hafa hugað út í hvernig best sé að vekja athygli á Tyrkjaráninu eystra, það sé í höndum heimamanna. Hann hafi áður vakið máls á ráninu við austfirska sagnfræðinga en hugrenningarnar farið af stað á ný í vikunni við rannsóknir og hann ákveðið að henda hugmyndinni út og sjá viðbrögðin.

Hann bendir þó á ýmsar miðlunarleiðir, allt frá hefðbundnum söguskiltum til margmiðlunar. „Menn eru orðnir svo framsæknir í miðlun, það er hægt að búa til ratleiki fyrir snjallsíma þar sem ferðamenn flýja undan óðum ræningjum með bjúgsverð. Ég heyrði nýverið af forritum fyrir fólk sem æfir fyrir maraþonhlaup þar sem það flýr undan uppvakningum til að fá ekki leið á hlaupunum.“

Keyptir úr haldi fyrir danskt samskotafé

Fæstir þeirra sem handsamaðir voru í ránunum áttu nokkurn tíman afturkvæmt á heimaslóðir. „Þetta var ekki okkar glæstasta stund. Þorsteinn Helgason hefur bent á að ránsmennirnir hafi í raun verið Hollendingar og Evrópubúar.

Það sem er daprast er að það voru helst Danir og danskt samskotafé sem varð til þess að tókst að kaupa fólk úr haldi. Íslendingar voru ekki mjög ríkir á þessum tíma og maður fær jafnvel á tilfinninguna við að skoða heimildir að þeir hafi ekki tímt að kaupa fólkið út.

Tyrkjaránin höfðu gríðarleg sálfræðileg áhrif og óttinn við að skelfilegir útlendingar kæmu, færu hér um ránshendi og dræpu fólk var ansi lengi við lýði.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar