Tvennir tónleikar á Skriðuklaustri á næstunni

„Þetta verða rosalega skemmtilegt, við flytjum gömlu Eyjalögin sem svo margir þekkja í örlitlum „djassfíling” sem lyftir þeim á nýjan stall,” segir sópransöngkonan Berta Dröfn Ómarsdóttir sem verður með tónleika á Skriðuklaustri annað kvöld ásamt píanóleikaranum Sigurði Helga Oddssyni. Eftir rúma viku troða þau Hera Björk Þórhallsdóttir og Björn Thoroddsen upp á sama stað.
Á dagskránni annað kvöld verða vel valin lög eftir Oddgeir Kristjánsson. „Þetta eru perlur á borð við, Ég veit þú kemur, Bjartar vonir vakna, Ágústnótt og  Heima, auk fleiri sígildra laga, en Sigurður Helgi gefur þeim einstakan blæ með sínum píanóleik. Þetta er engin háklassík, og þó, allt saman sígild íslensk lög,” segir Berta.

„Ég er mjög spennt að syngja á Skriðuklaustri, en ég var starfsmaður þar nokkur sumur í röð og finnst alltaf jafn gaman og gott að koma þangað,” segir Berta, en hún og Sigurður Helgi verða einnig með tónleika í Bláu kirkjunni á Seyðisfirði á miðvikudaginn þar sem kveður við allt annan tón. „Við verðum með aríur og ljóðaflokka eftir Tryggva M. Baldvinsson. Það fer því eftir áhugasviði fólks á hvora tónleikana það vill koma í klassíkina eða eitthvað léttara, nú eða það er forvitið um hvort tveggja,” segir Berta Dröfn.

Hera Björk og Björ Thor á sunnudag
Hera Björk Þórhallsdóttir og Björn Thoroddsen verð með tónleika á Skriðuklaustri sunnudaginn 21. júlí klukkan 15:00. Í fréttatilkynningu segir að þau komi úr sitthvorri áttinni, Björn sé fæddur Gaflari og Vestfirðingur, rokkari og djassgeggjari, en Hera samsuða af Þingeying og Árnesing sem fólk tengi mest við júróvisjón og jólin. Saman ætla þau að bjóða upp á stórgóða skemmtun með sögum, söngvum, sólóum og dassi af stælum í allskyns stílum, þannig að allir ættu að geta haft gaman af.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar