Tveir Austfirðingar fastráðnir til Þjóðleikhússins

Katrín Halldóra Sigurðardóttir frá Norðfirði og Almar Blær Sigurjónsson frá Reyðarfirði hafa verið fastráðnir sem leikarar við Þjóðleikhúsið.

Katrín Halldóra hefur undanfarin ár unnið í Borgarleikhúsinu en hún varð landskunn fyrir túlkun sína í sýningunni Ellý. Hún hefur stundað leik- og söngnám bæði hérlendis og í Danmörku. Í tilkynningu leikhússins segir að mikill fengur fyrir sé fyrir það að hafa „slíka leik- og söngkonu í sínum röðum.“

Á meðal verkefna hennar á næsta leikári verða meðal annars stórt hlutverk í söngleiknum Sem á himni sem Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstýrir en þar munu alls 25 leikarar taka þátt auk 12 manna hljómsveitar. Þá mun hún takast á við nýlegt verk eftir Caryl Churchill, Ást og upplýsingar, sem Una Þorleifsdóttir leikstýrir, í þýðingu Auðar Övu.

Almar Blær er að ljúka námi frá sviðslistabraut Listaháskóla Íslands en til tíðinda sætir að nýútskrifaðir leikarar fái fastráðningu. Hann mun einnig leika í Sem á himni.

Í frétt frá Þjóðleikhúsinu þakkar Almar Blær Spaugstofunni meðal annars fyrir að hafa fengið leiklistarbakteríuna snemma. Hann heillaðist af enska sjónvarpsmanninum David Attenborough og lagði það á sig átta ára gamall og með 39 stiga hita, að bíða í röð í þrjár klukkustundir eftir að geta hitt goðið þegar hann heimsótti Ísland.

„Ég byrjaði að leika strax í grunnskóla og hef ekki stoppað síðan. Ég var formaður leikfélagsins í Menntaskólanum á Egilstöðum öll árin mín þar; var virkur með áhugaleikfélögum á Austurlandi og notaði bara hvert tækifæri til þess að komast á svið. Ég lagði land undir fót árið 2017 og stundaði nám við dansleikhús hjá „Double Edge Theatre“ í Massachusetts í eina önn og í kjölfar þess ákvað ég að nú væri rétti tíminn til þess að reyna aftur að komast inn í Leiklistarskólann og það tókst í annarri tilraun,“ er haft eftir Almari Blæ.

„Ég man svo skýrt eftir því að hafa komið í Þjóðleikhúsið á sýningar sem barn. Mér leið alltaf eins og ég væri kominn í konungshöll um leið og ég steig inn í forsalinn. Og þegar tjöldin drógust frá þá var ég undantekningarlaust agndofa.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.