Skip to main content

Tunglbogi gladdi Austfirðinga

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. nóv 2023 10:42Uppfært 01. nóv 2023 10:47

Tunglbogi, regnbogi sem myndast í tunglskini, sást víða á Austurlandi síðasta föstudagskvöld.


Austurfrétt hefur spurnir af tunglboga meðal annars á Fljótsdalshéraði og Sandvíkurheiði.

Á vef Veðurstofunnar segir um tunglboga að þeir myndist í tunglskini, oftast nær fullu tungli, hvassvirði og rigningu. Þeir koma þá fram hlémegin fjalla.

Þar segir að tunglbogarnir, sem einnig eru nefndir njólubaugar, séu sjaldgæfir því fólk búist ekki við að sjá þá. Þeir eru oftast hvítleitir þótt stundum megi greina liti.

Um síðustu helgi voru tilvaldar aðstæður fyrir tunglbogann í fullu tungli. Ævar og Ásdís Dungal voru meðal þeirra sem sáu hann frá heimili sínu að Kaldá á Völlum skömmu fyrir miðnætti.

Þau segja tunglbogann hafa verið áhugaverða sjón og veðrið sérstakt, þurrt á þeirra svæði en mistur í loftinu.

Mynd: Ásdís Dungal