„Þungarokk og meira þungarokk“

Fríða Pálmars Lárusdóttir Snædal dúxaði frá Menntaskólanum um Egilsstöðum um jólin með 9,72 í meðaleinkunn. Fríða er í yfirheyrslu vikunnar hér á Austurfrétt.

 

 

Hver er galdurinn bak við þennan frábæra árangur? Að vera samviskusamur og sinna náminu, maður fer ótrúlega langt á því.

Var þetta stefnan frá fyrsta degi? Nei ekkert sérstaklega, ég hef bara alltaf lagt mikið upp úr því að standa mig vel í námi. Það er ekkert eins og ég hafi eytt öllum stundum í heimanám, en auðvitað krafðist þetta þess að ég tileinkaði mér allt sem ég tók mér fyrir hendur, sem getur alveg verið tímafrekt.

Ertu jafnvíg á allar greinar? Ég myndi segja það já, upp að vissu marki. Tungumálin eru þó mín sterkasta hlið.

Hvaða máli skiptir þessi góði árangur þig? Þetta skiptir ekki stórmáli þannig séð, en auðvitað er þetta gaman og ég get alveg verið mjög stolt af þessu.

Hvert stefnir þú núna og stefnir þú á sambærilegan árangur í háskóla? Fyrsta skrefið er tvímælalaust að finna mér vinnu. Annars er framtíðin frekar óráðin, en ég mun auðvitað halda áfram að gera mitt besta þegar kemur að frekara námi.

Fullt nafn: Fríða Pálmars Lárusdóttir Snædal.

Aldur: 19 ára.

Starf: Er í leit að vinnu.

Maki: Enginn.

Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? Ég hef aldrei sagt nei við pizzu.

Besta bók sem þú hefur lesið? Held það verði að vera The Handmaid’s Tale eftir Margaret Atwood.

Hvað er í töskunni þinni? Sími, veski, hleðslutæki, bíllyklar – bara þetta helsta. Tyggjó á góðum degi.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Allt of margar merkilega konur koma til greina – ég gæti ómögulega valið bara eina.

Syngur þú í sturtu? Nei.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Góðan húmor.

Tæknibúnaður? Apple.

Hver eru þín lífsgildi? Lífið er of stutt til að njóta þess ekki.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Jökulsárhlíðin – heima er best.

Draumastaður í heiminum? Einhvers staðar þar sem er heitt og allir tala spænsku – Mið-Ameríka kemur sterk inn.

Hver eru þín helstu áhugamál? Bókmenntir, tungumál og tónlist.

Hvernig er tónlistarsmekkurinn þinn? Þungarokk og meira þungarokk – inn á milli má svo finna eitthvað af indie-tónlist.

Settir þú þér áramótaheit? Nei, geri það aldrei.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Malala Yousafzai.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Úff, það er ýmislegt sem mætti breytast. Einna helst myndi ég vilja sjá að allir krakkar, þá sérstaklega stelpur um allan heim, nytu þeirra sömu réttinda og ég að geta gengið í skóla og menntað sig.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Kúba, tónleikar með Nothing More, og ferðalag til Japan.

Duldir hæfileikar? Þeir eru þá duldir fyrir mér.

Mesta afrek? Ætli það sé ekki jóladúx frá ME.

Ertu nammigrís? Já.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar