Treystir á velvilja fólksins á ferðum sínum um landið

Ferðalangur með fjaðurhatt að hætti indíána í hjólastól hefur vakið athygli íbúa á Héraði í dag. Sá kemur ekki úr Vesturheimi, eins og margir gætu haldið heldur úr austri.

Ferðalangurinn vakti athygli þar sem hann var á gatnamótunum við Fellabæ í morgun og reyndi að húkka sér far í norðurátt.

Hann heitir Janusz Pijanka og kemur frá Póllandi en hefur áratugum saman haft mikinn áhuga á menningu frumbyggja Norður-Ameríku.

Janusz er listamaður og sjálfstætt starfandi blaðamaður sem ferðast hefur víða um heiminn, til dæmis Ísrael, Sýrlands, Líbanon, Úkraínu, Möltu og fleiri staða. Janusz hefur einnig verið með annan fótinn í Frakklandi þar sem dóttir hans býr og hann selur listaverk sín.

Ferðast frítt

Markmið Januszar er að ferðast um löndin án þess að borga fyrir það. Um Ísland fer hann á puttanum og sefur þar sem því við verður komið. Þannig útskýrði hann fyrir Austurfrétt að hann hefði síðustu nótt gist á Fellavelli og komist þar í sturtu sem hefði verið mjög gott. Þá hefði hann víða notið mikillar gestrisni Íslendinga sem víða hefðu gefið honum súpu og kaffi.

„Engin farfuglaheimili, engir veitingastaðir, enginn Bónus. Ég veit að þetta er klikkun en fólkið hér er mjög gott,“ útskýrir Janusz.

Honum þótti Ísland afar fallegt en veðrið nokkuð kalt. Eins reynist það honum erfitt að tala takmarkaða ensku. Óskandi er að Janusz hafi fengið far norður á bóginn í dag en hann á flug heim til Póllands á föstudagskvöld eftir vikuferð um Ísland.

Prinsinn í Klonwoa

Hjólastólinn prýðir einnig fáni sem minnir á þann kanadíska að öðru leyti en hann er grænn. Þetta er fáni Klonowa í Póllandi, sem er í nágrenni borgarinnar Lodz, sem Janusz segir að sé örþjóðin sem hann tilheyri.

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst, með aðstoð veraldarvefsins, er þar um að ræða sjálfsstjórnarsvæði sem Janusz stofnaði. Þar er hann titlaður prins og hefur meðal annars reynt að gefa út eigin gjaldmiðil og frímerki. Tilraun hans til að segja sig úr lögum við Pólland hefur hins vegar vakið litla lukku meðal þarlendra yfirvalda. Þá fékk hann sekt fyrir óeirðir á almannafæri og gisti fangageymslur fyrir að ráðast að fyrrverandi forsætisráðherra Póllands með úldinni mjólk.

Janusz ferðast um á hjólastólnum og með hækju en hann segist slasaður á fæti eftir fólskulega árás fyrrum tengdafjölskyldu sinnar í Úkraínu.

Janusz hefur áður ferðast víða um heim á svipaðan hátt, alls kveðst hann hafa komið til 62 landa. Hann er með myndavél með sér og afrakstrinum deilir hann á Facebook og YouTube, auk þess sem hann yrkir ljóð á ferðinni. „Eftir að ég kem heim til Póllands sef ég ekki heldur sit við tölvuna við að gera myndböndin,“ útskýrir hann.

janusz pijanka indianaputtalingur 0009 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar