„Tónleikarnir gengu frábærlega“

Í gær fóru fram vel heppnaðir tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Austurlands í Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði. Tónleikarnir báru heitið La Dolce Vita og var þema tónleikanna tónlist sem tengist Miðjarðarhafinu. Á tónleikunum var leikin tónlist eftir Mozart, Joaquin Rodrigo og Felix Mendelssohn.


Stöðfirðingur Svanur Vilbergsson sá um einleik á gítar en hann hóf sitt gítarnám á Stöðvarfirði og Egilsstöðum áður en hann fór gítarnám til Englands og Spánar. Árið 2006 útskrifaðist hann með B. Mus. gráðu frá tónlistarskólanum í Maastricht í Hollandi og meistaraprófi við Konunglega tónlistarskólann í Haag. Hljómsveitarstjórn var í höndum Guðmundar Óla Gunnarssonar sem hefur komið víða við á ferlinum m.a. var hann aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, fastur stjórnandi hjá kammersveitinni Caput, hljómsveitarstjóri Íslensku óperunnar og nú síðast hefur hann vakið athygli fyrir stofnun og uppbyggingu Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands.

Sóley Þrastardóttir leikur á piccolo í Sinfóníuhljómsveit Austurlands auk þess sem hún kom að skipulagningu tónleikanna. „Tónleikarnir gengu frábærlega og viðtökurnar voru mjög góðar í gær. Við æfðum stíft um helgina fram að tónleikum á sunnudaginn. Svanur Vilbergsson brilleraði á tónleikunum og Guðmundur Óli, hljómsveitarstjóri, stóð sig afskaplega vel,“ segir Sóley um tónleikanna. Vel var mætt í gær og segir Sóley það hafa verið einstaklega skemmtilegt að sjá hve mörg börn voru á tónleikunum.

Langur aðdragandi var að tónleikunum en þeir áttu upphaflega að fara fram í mars árið 2020, á sama tíma og fyrstu samkomutakmarkanirnar voru settar vegna Covid-19. Síðan þá hefur tónleikunum verið frestað alls fjórum sinnum. „Það var mjög gott að geta loksins haldið tónleikana í gær eftir þessa löngu meðgöngu,“ segir Sóley.

Næstu tónleikar Sinfóníutónleikar Austurlands fara fram í nóvember þar sem hljómsveitin mun frumflytja verk eftir tónskáldið Þórunni Grétu Sigurðardóttiur, en verkið er það fyrsta sem Sinfóníuhljómsveit Austurlands pantar hjá tónskáldi og frumflytur. Þórunn er úr Fellabæ og rétt eins og Svanur Vilbergsson hóf hún tónlistarnám á Austurlandi. „Þetta er Sinfóníuhljómsveit Austurlands og við viljum að tengingar hljómsveitarinnar við Austurland séu sterkar,“ segir Sóley að endingu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.