Orkumálinn 2024

Tólfan frá Vopnafirði varði Legomeistaratitilinn

Lið Vopnafjarðarskóla vann um helgina titil sinn í árlegri tækni- og hönnunarkeppni Lego og þar með þátttökurétt í Norðurlandakeppni eftir tvær vikur. Brúarásskóli og Seyðisfjarðarskóli náðu einnig góðum árangri í keppninni.

Keppnin kallast First Lego League og er haldin árlega í umsjá Háskóla Íslands í Háskólabíói. Hún féll niður árið 2020 vegna Covid-faraldursins og keppnin 2021 var loks haldin í febrúar í ár og þá í gegnum netið. Er þetta því í annað skiptið á tíu mánuðum sem Vopnfirðingar fara heim með aðalverðlaunin.

„Þeim finnst ótrúlegt að hafa unnið aftur og eru afar ánægð,“ segir Sólrún Dögg Baldursdóttir, stærðfræðikennari sem heldur utan um liðið.

Nýsköpun í orkumálum

Keppnin skiptist í fernt. Í fyrsta lagi er um að ræða nýsköpunarkeppni sem að þessu sinni tengdist orkumálum í heimabyggð enda þema keppninnar ofurkraftar. Vopnafjarðarliðið horfði inn á við í skólanum og lagði til lausnir á borð við að koma hljóðlátum hjólum fyrir undir borðum nemenda sem vildu hjóla meðan þeir lærðu til að framleiða rafmagn. Eins yrði settar mottur sem geta búið til rafmagn í tröppur skólans auk þess að koma upp vélrænni loftræstingu. Liðsmenn bjuggu til myndband og veggspjöld til að kynna verkefnið.

„Þau leituðu sér upplýsinga hjá fólki í bænum, hittu til að mynda fjármálastjóra sveitarfélagsins til að fá upplýsingar um kostnað við orkunotkun skólans, sem er hár. Síðan fengust upplýsingar frá iðntæknifræðingi hjá Bílum og vélum um loftræstinguna,“ útskýrir Sólrún Dögg.

Þátttaka í Lego-keppninni er nú valáfangi í 8. – 10. bekk við Vopnafjarðarskóla. Síðasta vetur voru allir í 7. og 8. bekk þátttakendur, tólf talsins. Þaðan var nafn liðsins, Dodici fengið en það er tólf á ítölsku. „Þau leituðu að flottu orði fyrir töluna tólf og fannst þetta flottast.“ Liðið nú heitir reyndar Dodici mínus með vísan til þess að liðsmennirnir nú eru færri. Ekki völdu allir nemendur áfangann en hins vegar var liðið nú alfarið skipað krökkum sem voru með í febrúar.

Nágrannar í úrslitum í vélmennakappleik

Hápunktur keppninnar er vélmennakappleikur þar sem smíðað er vélmenni með kubbum og tæknibúnaði frá Lego til að leysa ákveðnar þrautir. Þar bjuggu Vopnfirðingar að fyrri árangri því þeir notuðu nýjasta þjarkinn frá Lego, Spike, eftir að hafa unnið hann í vor. „Hann er aðeins lengur af stað en sá gamli en er nákvæmari og hlýðnari,“ segir Sólrún.

Í þeim hluta keppninnar höfðu Vopnfirðingar betur gegn nágrönnum sínum austan megin Smjörfjalla úr Brúarási betur í úrslitum. Sólrún segir að þrautin í ár hafi verið sérlega snúin. „Þetta er í fyrsta sinn sem hægt er að byrja á tveimur mismunandi stöðum á borðinu. Síðan hafa þau tvær og hálfa mínútu til að gera það sem þarf.

Teikning af brautinni kemur í upphafi skólaárs og þau þurfa að byrja á að byggja hana og róbótann. Síðan eru þau að fást við að nýta þennan tíma sem best. Það er ekki hægt að ná í öll stig sem í boði eru í borðinu heldur verður að velja hvernig hægt sé að fá sem flest stig á þessum tíma,“ segir Sólrún.

Hönnun og forritun róbótans er þriðja atriðið sem telur í stigakeppninni en þessir þættir eru kynntir fyrir sérstakri dómnefnd. Þann hluta vann lið Brúarásskóla, Hleðzlan. Að lokum er liðsheild metin, það er hvernig einstaklingarnir í liðinu vinna saman. Seyðisfjarðarskóli varð svo í þriðja sæti í heildarkeppninni. Alls tóku fimmtán skólar þátt að þessu sinni.

Tvær vikur í Norðurlandamót

Þetta er í þriðja sinn sem Vopnafjarðarskóli vinnur keppnina en hann gerði sér lítið fyrir og kom heim með fyrstu verðlaun strax í fyrsta sinn sem skólinn tók þátt árið 2016. Sterk hefð hefur því myndast í skólanum fyrir keppninni en eins og Sólrún bendir á þá græða krakkarnir margt á undirbúningnum fyrir keppnina.

„Þetta er allt verulega lærdómsríkt. Við nýsköpunina leita þau upplýsingar til fólks í nærsamfélaginu sem leggur hugmyndir. Þau hafa oft leitað til Brims en líka sveitarfélagsins, Bíla og véla og annarra. Þau sýna verkefnið oft fyrir þessum aðilum fyrir keppni og fá þá fleiri gagnlegar athugasemdir. Það þarf þrautseigju í að vinna með róbótann, hann er forritaður til að gera ákveðna hluti sem síðan reynist þörf á að bæta. Þau þjálfast líka mikið í að vinna saman.

Þau leggja mikinn metnað og tíma í vinnuna. Vinnan fer mest fram í skólanum en líka í frímínútum og matartímum. Þau almetnaðarfyllstu eru jafnvel að eftir skóla, leita að upplýsingum og skiptast á þeim,“ segir hún.

Vegferðinni er ekki lokið því með sigrinum um helgina vann Dodici sér inn rétt til þátttöku í Norðurlandamótinu sem haldið verður í Osló þann 3. desember. Fyrir þann tíma þarf að þýða allt kynningarefni nýsköpunarverkefnisins á ensku, sem er aukaálag fyrir íslenska liðið þar sem hin liðin af Norðurlöndunum mega nota sín móðurmál. Eins þarf að afla fjár til ferðarinnar og betrumbæta róbótann.

Mynd: Háskóli Ísland/Kristinn Ingvarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.