Tókst loks að frumsýna Fullkomið brúðkaup

Leikfélag Fljótsdalshéraðs frumsýndi í gærkvöldi gamanleikinn Fullkomið brúðkaup í þriðju tilraun. Samkomutakmarkanir og óveður settu áður strik í reikninginn.

„Það var mikil gleði að geta loks frumsýnt og það gekk glimrandi vel, við vorum með frábæran sal,“ segir Einar Sveinn Friðriksson, formaður félagsins.

Fyrsta tilraun til að sýna verkið var í lok október. Þá var frumsýningu flýtt um einn dag, frá fyrri áformum, því boðað hafði verið að nýjar samkomutakmarkanir tækju gildi. Að morgni frumsýningardags lenti hins vegar einn leikaranna í sóttkví og þótt hann reyndist ekki smitaður af Covid-19 var þá orðið seint að sýna.

Í byrjun árs var þráðurinn tekinn upp aftur og frumsýning ákveðin á laugardag. Þeirri sýningu varð að fresta vegna óveðurs og ófærðra. „Það var ekki nóg með að yfirvöld skelltu á nefið á okkur í haust heldur ákvað veðrið að vera með derring líka,“ segir Einar Sveinn.

Hann segir þó ákveðinn kost að sýna núna því búið er að rýmka samkomutakmarkanir frá því sem þær voru þegar sýna átti í haust. Þá máttu að hámarki vera 20 manns á sýningu en nú er pláss fyrir 50 áhorfendur, þótt húsið taki fleiri.

„Það er skemmtilegra að hafa fleiri í salnum því það skapar meiri stemmingu. Við pössum okkur þó að hafa rúmt á milli fólks og sóttvarnir til staðar.“

Sýnt er í félagsheimilinu Iðavöllum öll kvöld til sunnudags. Einar Sveinn segir að síðar í vikunni verði ákveðið hvort bætt verði við sýningu í stað þeirrar sem féll niður á laugardag en það velti á aðsókn. Þá verði leikritið einnig tekið upp og gert aðgengilegt fyrir þá sem vilja sjá það en treysta sér ekki til að mæta í leikhús á tímum heimsfaraldurs.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.