Tölvurnar þýða hraða þróun í kennsluháttum

Um sjötíu austfirskir kennarar hittust í Egilsstaðaskóla á mánudag á stuttu námskeiði, menntabúðum, þar sem þeir kynntust möguleikum til að nýta tölvutækni í námi.

„Við erum að kynna hvert öðru rafræna kennsluhætti með jafningjafræðslu,“ segir Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir, aðstoðarskólastjóri á Egilsstöðum.

Menntabúðirnar eru með því sniði að kennarar hittast nokkrum sinnum á hverjum vetri og kynna hver öðrum tækifæri sem þeir hafa rekist til að nýta tölvutæknina í skólastarfinu. Búðirnar flakka á milli skóla og bera gestgjafar hverju sinni ábyrgð á dagskránni.

Fyrri hluti búðanna á mánudag fór í hraðstefnumót þar sem kennurunum var skipt upp í hópa og fékk hver hópur þrjár mínútur á hverri stöð. Þar var aftur skólastarfsmaður sem kynnti þá tækni sem hann hafði tileinkað sér.

Sigurbjörg stóð fyrir einni stöðinni þar sem hún kynnti skipulagstólið Trello sem hún segir hvort sem er geta nýst starfsfólk eða nemendum, til dæmis í hópastarfi. Seinni hlutinn samanstóð af fimm málstofum þar sem farið var dýpra í nokkur útvalin tæki.

Sigurbjörg segir tækniþróunina hraða og kennara þurfa að fylgjast vel með. „Það er rosalega hröð þróun í kennsluháttum. Snjalltæki eru bara verkfæri til að auka fjölbreytni til að ná markmiðum í náminu.

Sumum finnst eins og nemendur séu bara að leika sér í tækjunum en það er bara brot af þeim sem gera það. Yfirleitt erum við að nýta tæknina í kennslunni.“

Kennarar eru misduglegir að afla sér þekkingar á tækninni. Sumir eru á námskeiðum hingað og þangað eða leita sér upplýsinga meðan þeir horfa á sjónvarpið á kvöldin. Þess vegna er frábært að hafa menntabúðirnar þar sem þessir kennarar geta kynnt fyrir öðrum hvað þeir hafa verið að gera.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.