„Tökum þessu af hógværð og miklu þakklæti“

Félag ljóðaunnenda á Austurlandi fékk á mánudag sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu fyrir störf í þágu íslensks máls. Formaður félagsins segist hafa orðið undrandi þegar hann fékk tíðindin en viðurkenningin sé félaginu mikils virði.

„Ég held að ég hafi sjaldan orðið meira hissa en þegar Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hringdi undir kvöldmat síðasta föstudag til að bjóða mér suður til að veita viðurkenningunni viðtöku,“ segir Magnús Stefánsson, formaður félagsins.

Í greinargerð ráðgjafarnefndar verðlaunanna segir að félagið hafi með félagsstarfi sínu hlúð að grasrótinni í íslenskum skáldskap, aukið við flóru íslenskra góðskálda og haldið í heiðri minningu eldri skálda sem nú séu um garð gengin. Félagið hafi sýnt að á Austurlandi sé ekki aðeins eyjaval, eins og Jónas Hallgrímsson hafi ort um, heldur líka skáldaval.

„Þetta er mikill heiður fyrir okkur og ég álít að það sé félaginu mikilvægt að fá þessa viðurkenningu. Fyrst og fremst kynnir þetta félagið okkar. Hvorki það né útgáfa þess hefur verið mjög þekkt heldur höfum við frekar unnið okkar verk í kyrrþey. Við tökum þessu af hógværð en miklu þakklæti,“ segir Magnús.

Markmiðið var ein bók

Félag ljóðaunnenda á Austurlandi var stofnað á Stöðvarfirði þann 20. júlí árið 1996. Þar var verið að halda upp á 100 ára verslunarafmæli staðarins og þáverandi sveitarstjóri, Björn Hafþór Guðmundsson, bauð félaginu að halda stofnfundinn í tengslum við afmælið. Að auki gaf sveitarfélagið félagsskapnum 50 þúsund krónur.

Magnús segir starfsemina fyrstu árin fyrst og fremst hafa falist í ljóðakvöldum auk þess sem haldin voru nokkur hagyrðingamót. Þá var strax ákveðið að gefa út bók með úrvali ljóða eftir austfirsk skáld og var fyrirmyndin sótt aftur til bókarinnar „Aldrei gleymist Austurland“ sem kom út árið 1949.

Bókin „Raddir að austan“ kom út árið 1999, 50 árum á eftir þeirri fyrri og hélt Magnús utan um útgáfuna, leitaði uppi höfunda og valdi ljóð í samráði við þá. „Það var ekkert áformað að gefa út nema þessa einu bók.“

Austfirsk ljóðskáld

Þau áform breyttust. Tveimur árum síðar kom út fyrsta bókin í flokknum Austfirsk ljóðskáld. Hún hét „Austan um land“ og var eftir Sigurð Óskar Pálsson. Síðan hefur verið gefin út ein bók á ári í flokknum og eru þær því orðnar tuttugu alls. Sú síðasta kom út í lok október, heitir „Ég skal segja ykkur það,“ eftir Sólveigu Björnsdóttir.

„Við höfum haldið þessu áfram. Það var aldrei verið ætlum okkar að gera okkur gildandi á bókamarkað og áherslan verið að gefa frekar út fáar bækur en vanda til útgáfunnar. Við gerum miklar kröfur og gefum ekki út hvað sem er. Ef ljóðin eru hefðbundin þurfa þau til dæmis að standast bragreglur. Ég álít að allar þær bækur sem félagið hefur gefið út hafi verðskuldað það og standist allar nokkuð harðar kröfur.“

Utan við flokkinn hefur félagið gefið út bækur sem Magnús segir félagsfólk tala um sem „aukabækur.“ Þær eru orðnar 19 talsins og bækurnar því alls 39 sem félagið hefur gefið út. Tvær slíkar komu út í ár, annars vegar „Rætur og þang“ eftir Karlínu Friðbjörgu Hólm, hins vegar „Hugurinn einatt hleypur minn“ eftir Guðnýju Árnadóttur eða Skáld-Guðnýju, sem uppi var á 19. öld. „Ég tel bók Guðnýjar mikilvæga fyrir austfirska menningu,“ segir Magnús.

Kröfur um gæði

Aðspurður segir Magnús að mikil gróska sé í austfirskri ljóðskáld og bendir á að það sé ekki svo að félagið einoki þau. „Ég vona að austfirsk ljóð séu óþrjótandi auðlind. Sem betur fer koma út fleiri ljóðabækur á Austurlandi, fjölmargir höfundar gefa út sjálfir og blessunarlega gefa stóru forlögin líka út eftir austfirska höfunda.

Ég held þó að við megum vera ánægð með hversu margir höfundar hafa treyst okkur fyrir að gefa út bækur sínar. Stundum kemur efnið upp í hendurnar á okkur, en stundum höfum við samband við höfunda og spyrjum hvort þeir vilji ekki að við gefum út fyrir þá. Ég geri ekki ráð fyrir að flokkurinn komið sleitulaust út að eilífu en við hættum ekki meðan fólk vill gefa út undir nafni félagsins.“

Harðasti kjarninn á ljóðastundum

Félagsmenn eru rúmlega 100 talsins og greiða þeir engin félagsgjöld heldur skuldbinda sig til að kaupa bók ársins úr bókaflokknum. Magnús segir það afar mikilvægt fyrir félaginu auk styrkja sem það hefur hlotið úr Uppbyggingarsjóði Austurlands. Auk bókaútgáfunnar stendur félagið fyrir reglulegum ljóðaviðburðum, sem hafa þó þurft undan að láta eins og margar aðrar samkomur síðustu mánuði út af Covid-19 faraldrinum.

„Mánaðarlegar ljóðastundir hafa verið fastur liður í starfinu frá árinu 2006. Við höfum hist á Bókakaffi í Fellabæ sem hefur verið heimili félagsins síðustu ár. Ég segi að það sé harðasti kjarni félagsmanna sem sækir þær.“

Magnús segir félaganna ánægða með viðurkenninguna. „Ég hef fengið mikil viðbrögð, bæði frá þeim og öðrum. Að auki kom kippur í pantanir á bók Guðnýjar. Það hefur samt verið mikill áhugi á henni, ég hef farið með bækur nær daglega í póst síðustu tvær vikur.“

Tvær bækur á næsta ári

Félagið fagnar stórafmæli á næsta ári, 25 árum auk þess sem von er á fertugustu bókinni frá því. Magnús segir að búið sé að ákveða að gefa þá út tvær bækur, annars vegar komi ný bók í bókaflokknum sem verður eftir Hannes Sigurðsson, sonar Sigurðar Óskars sem gaf út þá fyrstu.

Aukabókin verður með ljóðum og söngtextum eftir Valgeir heitinn Sigurðsson, fyrrum kennara á Seyðisfirði. Ingólfur Steinsson, rithöfundur og tónlistarmaður frá Seyðisfirði, vinnur að útgáfunni og mun skrifa um ævi og kveðskap Valgeirs.

Áhugi á ljóðum frá barnæsku

Magnús hefur verið formaður félagsins frá stofnun þess og almennt hefur verið stöðugleiki í stjórninni, sem auk hans sitja nú í Ína Dagbjört Gísladóttir og Vigfús Ingvar Ingvarsson. Magnús segist alltaf hafa haft yndi af ljóðum og ort nokkur en aldrei gefið út bók.

„Ég hef notið ljóðalesturs eiginlega síðan ég var barn og sá áhugi hefur heldur aukist með aldrinum. Ég hef safnað að mér töluverðu af ljóðabókum. Ég hef þó aldrei gefið út bók sjálfur, bara birt stöku ljóð í blöðum og tímaritum. Þessi útgáfa hefur æxlast á þennan hátt, eins og svo margt í lífinu. Ég gerði aldrei áætlanir um að fara í þessa útgáfu.“

Í samstarfi við Rithöfundalestina á Austurlandi 2020 hefur Austurfrétt í vikunni staðið fyrir kynningum á þeim bókum sem Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hefur gefið út á árinu. Hér að neðan er hægt að sjá þær.

Hugurinn hleypur einatt minn eftir Guðnýju Árnadóttur
Rætur og þang eftir Karlínu Friðbjörgu Hólm
Ég skal segja ykkur það eftir Sólveigu Björnsdóttur

Magnús við verðlaunaafhendinguna í Hörpu á mánudag ásamt Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og Gerði Kristnýju, sem fékk verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Mynd: Sigurður Stefán Jónsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.