Tískusýning í regnbogagötunni í kvöld

Tískusýning með peysum prjónuðum af Tótu van Helzing, sem lést í desember í fyrra, verður haldin í miðbæ Seyðisfjarðar í kvöld.

Tóta, sem var aðeins 31 árs er hún lést eftir baráttu við heilakrabbamein, var prjónahönnuður og tók ung ástfóstri við bæði Seyðisfjörð sem og LungA-hátíðina, sem stendur yfir í vikunni.

Yngri systir hennar, Valgerður Anna, hefur í vikunni staðið fyrir sýningu á prjónuðum peysum og fleiru úr fórum Tótu í Heima á Seyðisfirði. Sýningin hófst á mánudag og hefur hvern dag vikunnar verið skipt um peysur í samræmi við litaþema dagsins.

Í safni Valgerðar eru ríflega 30 peysur eftir Tótu og verða þær allar sýndar á tískusýningu í Norðurgötu, einnig þekkt sem regnbogagatan, klukkan 19:00 í kvöld.

„Að prjóna peysurnar og selja var hennar lifibrauð en fyrir mér er hver einasta peysa listaverk sem ekki er til annað eintak af. Ég nota peysurnar á allt annan hátt en hún. Hún átti eftir að sýna heiminum list sýna.

Hún var prjónahönnuður og valdi sér þann vettvang til að skapa. Garnið er allt endurunnið, afgangar keyptir á nytjamörkuðum eða fengnir gefins. Hún skoðaði hvernig hægt væri að nýta efniviðinn og vann á línum sjálfbærrar tísku.

Hún var ung þegar hún fann sinn stíl og prjónaverk hennar eiga engan sinn líka. Peysurnar þekkjast úr kílómetra fjarlægð. Sköpunargáfan var ótrúleg og hún prjónaði allt fram á síðasta dag,“ segir Valgerður.

Tóta dvaldi mikið á Seyðisfirði, einkum á sumrin og var mikil viðriðin LungA-hátíðarinnar sem staðið hefur yfir í vikunni. Það verða vinir hennar sem klæðast peysunum hennar í kvöld.

„Það var auðvelt að fá módel. Ef þetta eru ekki vinir hennar, þá vinir vina. Það þekktu margir til hennar og henni þótti mjög vænt um hátíðina.“

Síðasti opnunardagur sýningarinnar í Heima verður á morgun.

Valgerður við nokkrar peysur af sýningunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.