Tinna Kristbjörg hlýtur hvatningarverðlaun TAK 2018

Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir hlaut í vikunni hvatningarverðlaun Tengslanets austfirskra kvenna fyrir árið 2018. Tinna hefur í starfi sínu sem verkefnastjóri hjá Austurbrú greint tölfræði sem skilað hefur áhugaverðum niðurstöðum um stöðu kvenna á Austurlandi.

Verðlaunin eru veitt konu á Austurlandi sem talin er hafa sýnt frumkvæði og áræðni í atvinnulífi, menningu og samfélagi ásamt því að skara fram úr í störfum sínum í þágu kvenna. Einnig liggur í verðlaununum hvatning að halda áfram því góða starfi.

Í rökstuðningi valnefndar segir að Tinna hafi með elju sinni og áhuga stutt við margskonar félgasstörf, íþróttaiðkun og menntun ásamt því að kynna Austurland og stöðu kvenna í tölum og myndum.

Tinna ólst upp á Þórshöfn á Langanesi en kom austur að loknu háskólanámi og starfaði fyrst við Menntaskólann á Egilsstöðum.

Tinna hefur starfað lengi við kennslu og aðstoðað marga við lokaritgerðir og prófundirbúning. Hún hefur mikinn áhuga á tölum og tölfræði sem hafa skilað áhugaverðum niðurstöðum um stöðu kvenna á Austurlandi. Meðal annars flutti hún erindi á ráðstefnum sem sýndi launamun kynjanna á Austurlandi.

Tinna hefur áhuga á mismunandi hreyfingu. Hún stóð að stofnun „Simply Yoga“ og kennirjóga á Egilsstöðum. Hún kom einnig að stofnun Kraftlyftingafélags Austurlands sem nýverið opnaði aðstöðu á Neskaupsstað. Þá er hún mikill göngugarpur og dugleg að ganga á fjöll.

Tinna lætur ekki sitt eftir liggja í skapandi greinum og er virk í stjórn Myndlistafélags Fljótsdalshéraðs ásamt því að mála sjálf.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar