Tímavélin: Svartur sjór af síld - 1961

Fyrir 60 árum:
Dagana 22. – 24. júlí árið 1961, eða fyrir sextíu árum síðan, sögðu fjölmiðlar fréttir af mokveiði á síld á Austurlandi.

 

„Í gærdag var allgóð veiði á miðunum fyrir austan. Fréttaritari Mbl. á Vopnafirði símaði í gærkvöldi að Ársæll Sigurðsson hefði séð svartan sjó af síld svo langt sem augað eygði á Glettinganesgrunni [...] Þá heyrði fréttaritari á tal tveggja báta, sem staddir voru um 10 mílur austur af Norðfjarðarhorni. Sögðust þeir sjá þar svartan sjó af síld, og væri hún mjög róleg,“ sagði á baksíðu Morgunblaðsins 22. júlí.


Það reyndist rétt hjá Ársæli, allt var morandi í síld við Austurland á meðan aflinn var ekki eins góður á Norðurlandi og voru fluttar fréttir af því næstu daga. „Sama óhemju síldarmagnið er enn undan Austfjörðum. Má segja, að frá Glettinganesflaki og suður að Norðfjarðarhorni sé sjórinn svartur af síld. Þá er síldin einnig að spekjast. Því miður getur ekki nema hluti flotans stundað veiðarnar, því fjöldi skipa bíður alltaf eftir löndun,“ sagði Morgunblaðið 23. júlí. Tíminn fjallaði einnig um málið þennan sama dag og sagði: „Um það bil tveggja klukkustunda siglingu beint út af Norðfirði, 12-20 mílur frá landi, verður síldin í stórum breiðum, og muna elztu menn ekki annað eins. Síld þessi er þæg og gott við hana að eiga, og feit eins og áður. Segja gamlir menn á Norðfirði, að ekki líði að löngu, þar til síldin stingi sér inn í firðina, eins og forðum daga.“


Það hefur verið líf og fjör á síldarplaninu á þessum tíma því svo mikið var að gera að tunnulaust varð á Norðfirði og Eskifirði. „Gífurleg síldveiði hefur verið út af Austfjörðum nú um helgina. Það er einna líkast síldarsumrinu mikla 1944, segja gamlir síldveiði sjómenn. Skipin sigla í gegnum vaðandi síldartorfurnar, og verða að skera af þeim sneiðar, til þess að ráða við köstin. Skipin streyma látlaust inn til Siglufjarðar og taldi fréttaritari Vísis á Raufarhöfn, að nær 100 skip hefðu fengið fullfermi síldar frá því á sunnudagsmorguninn þar til í morgun [mánudagsmorgunn]. Mun láta nærri, að þau séu með 75.000-80.000 mál til bræðslu. Í þessum hamagangi öllum hafa sum skipin sprengt nætur sínar, en önnur hafa orðið að biðja nærstödd skip að koma sér til hjálpar til þess að ráða við köstin. Fréttaritari Vísis á Siglufirði sagði að þar væru öll löndunartæki verksmiðjanna í gangi. Skipin eru um og yfir 20 klst. á leiðinni þangað með síld,“ sagði Vísir 24. júlí 1961.

 

Á myndinni má sjá síldarbáta í höfninni á Norðfirði árið 1960.

Myndin er frá Skjala- og myndasafni Norðfjarðar - Héráðsskjalasafnið í Neskaupstað. Myndina tók Björn Bjarnason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.