Til prýði fyrir Víði

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hvetur íbúa til að taka til í sínu nærumhverfi um helgina undir slagorðinu „Til prýði fyrir Víði.“ Umhverfisstjóri segir þá sem þegar hafi farið út að tína rusl eftir veturinn hafa þau skilaboð að færa að ekki veiti af því að taka til hendinni.

„Hugsunin á bakvið þetta er að íbúar tíni rusl eða fari í minniháttar viðhald í sínu nærumhverfi. Við höfum yfirleitt verið með sambærilegt átak á vorin. Hugsunin er að íbúar sýni frumkvæði og ábyrgð í að halda sínu nánasta umhverfi snyrtilegu.

Við gerum hins vegar aðeins meira núna. Þar kemur einkum tvennt til. Annars vegar var vilji fyrir því hjá bæjarstjórn að leggja áherslu á hreinsun, hins vegar er þetta hvatning til að vera heima síðustu dagana áður en slakað verður á samkomubanninu en njóta samt útiveru.“

Þetta segir Freyr Ævarsson, verkefnastjóri umhverfismála hjá Fljótsdalshéraði. Búið er að koma upp þremur gámum í þéttbýlinu til að taka á móti rusli. Einn er við Samfélagssmiðjuna á Egilsstöðum, annar á bílastæðinu við Selbrekku og sá þriðji við Einhleyping í Fellabæ. Þá geta íbúar óskað haft samband við áhaldahúsið og óskað eftir aðstoð ef á þarf að halda.

Efnt var til ruslatínslu víða um land um síðustu helgi. „Það voru einhverjir á ferðinni hér þá og töluvert magn af sorpi sem skilaði sér inn á gámavöllinn. Ég hef heyrt frá því fólki að það sé ánægt með að efnt sé til átaks líka nú því ekki sé vanþörf á að fara aftur.“

Hreinsunin er undir slagorðinu „Til prýði fyrir Víði“ með tilvísun í slagorð sem varð til í samkomubanninu „ég hlýði Víði“ með vísun í Víði Reynisson, yfirlögregluþjón hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Aðspurður um hvort von sé á Víði sjálfum til að taka út árangurinn af átakinu svarar Freyr: „Ekki svo ég viti, en það er góð hugmynd að bjóða honum í heimsókn og hann er ávallt velkominn. Í samræmi við hvatningu til fólks til að ferðast innanlands þá gerum við ráð fyrir að hann láti sjá sig hér í sumar.“

Frá snyrtiátaki á Fljótsdalshéraði. Mynd úr safni/Sigrún Hólm.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.