Þýskur myndlistarmaður á hringferð á gömlum eikarbáti

Peter Lang, landslagsmálari frá Þýskalandi, siglir um þessar mundir hringinn í kringum landið á 44 ára gömul fiskibát úr eik, Páli Helga, sem áður var gerður út frá Bolungarvík.

 

Landsýn kallast verkefnið og felst í því að Peter málar landslagsmyndir af Íslandi úti á sjó. Peter var staddur á Eskifirði í dag þegar blaðamaður fékk að stökkva um borð. Í gær var hann staddur á Norðfirði og búast má við að hann stoppi einnig á Reyðarfirði og fleiri stöðum á Austurlandi næstu daga.

„Ég dvaldi á Íslandi fyrir um áratug síðan á Hellissandi þar sem ég var að mála. Þar kynntist ég Sigfúsi Almarssyni, sem starfar sem kokkur á Snæfellsnesi, við fengum þessa hugmynd um að við sigldum um og ég myndi mála myndir. Það varð ekki af því þá en við veltum þessu aftur upp í fyrra og það varð til þess að hér erum við nú,“ segir Peter um upphaf verkefnisins.

Sigfús Almarsson er með Peter Lang í för um landið og segir Peter að Sigfús sé nokkurs konar stjórnandi verkefnisins en það var Sigfús sem útvegaði þeim bátinn. „Við vorum lengi að finna bát, það var ekki auðvelt verk. Í gegnum svila minn fengum við þennan bát á Bolungarvík en hann er ekki gerður út til fiskveiða lengur,“ segir Sigfús.

Önnur sýn á landslagið
Peter Lang segir að það sé töluverður munur að mála landslag á landi annars vegar og sjó hins vegar. „Ég er algjör landkrabbi og ég hef aldrei málað myndir á sjó áður. Ég kem frá einu mesta skóglendi Evrópu svo nálægð mín við sjó er almennt ekki mikil. Sem myndlistarmaður sem málar landslag þá vinnur maður oftast út frá jarðlitunum og út í kalda liti eins og bláan en þessu er snúið við úti á sjó, þar byrjar maður á köldu litunum. Þetta finnst mér mjög áhugavert, að fá breyta því hvernig maður málar landslagsmyndir. Það sem mér finnst einnig skemmtilegt við þetta verkefni er að ég er á stöðugri ferð þegar ég mála, oftast málar maður landslag með því að koma sér fyrir á ákveðnum stað en á siglingunni breytist sjónarhorn mitt á viðfangsefnið á meðan ég mála myndina. Ég þarf því að hafa hraðar hendur,“ segir Peter sem hefur nú þegar málað 112 myndir frá hann lagði af stað frá Bolungarvík 14. júní síðastliðinn.

Ísland eins og kameljón
Peter Lang verður á ferðinni um Austurland næstu daga og ætlar að fara sér hægt. Hann ætlar að vera út á sjó næstu sex vikurnar en hann er á suðurleið sem stendur. „Það er mjög skemmtilegt að sjá fjölbreytilegan meðfram íslensku strandlengjunni. Ég mun kannski ekki stoppa í hverri einustu höfn en vonandi sem flestum,“ segir Peter sem vill lítið tjá sig um hver sé fegursti staður sem hann hefur séð í ferð sinni. „Það er í raun ekki hægt að meta það almennilega. Staðirnir eru aldrei eins, það fer eftir ljósi og aðstæðum hvernig þeir horfa við manni. Það er magnað við þetta land að umhverfið virðist breytast á hverri klukkustund. Ég var í Loðmundarfirði að kvöldi til um daginn, og var þá búinn að vera vinna allan daginn. Þetta var svo fallegt sumarkvöld en ég var svo þreyttur að ég gat einfaldlega ekki málað meira þann daginn. Ég bað Friðþjóf skipstjóra um að fara aftur þangað daginn eftir en þá var umhverfið ekki eins og daginn á undan. Sjórinn, ljósið og allt var breytt og fegurðin ekki sú sama. Þessi eyja er eins og kameljón, sífellt að breytast.“


Litir úr íslenskri náttúru
Litirnir sem Peter vinnur með á ferð sinni eru býsna sérstakir. Þeir eru unnir úr íslensku grjóti sem hann tíndi á Snæfellsnesi en vinnslan fór fram í Þýskalandi. Málningartúpurnar eru merktar ýmsum nöfnum þaðan sem hráefnið kemur, um borð eru túpur m.a. merktar Snæfellsjökull, Brimilsvellir og Heydalsvegur. „Þessir litir eru mjög sérstakir og hafa verið mjög hjálplegir í þessari ferð. Þessir litir eru eins íslenskir eins og þeir verða. Þetta eru litir úr íslenskum jarðvegi, litir fjallanna sem ég mála,“ segir Peter.
Afrakstur verkefnisins verður til sýnis í Þýskalandi í haust, bæði í galleríum og söfnum, og verður fyrsta sýning í Berlín í upphafi septembers. Auk þeirra Peter Lang og Sigfúsar Almarssonar er áhöfnin á Páli Helga í hringferðinni skipuð þeim: Lofti Bjarnasyni og Friðþjófi Sævarssyni, skipstjórum og Árna Emanúelssyni, vélstjóra.

 

Sjá má myndskeið úr ferðalagi Páls Helga með því að smella á hlekkinn hér að neðan.

https://player.vimeo.com/video/566618194?dnt=1&app_id=122963

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.