Þyrlan hífði nýja brú á Hjálmá

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar aðstoðaði nýverið félaga í Gönguklúbbi Seyðisfjarðar við að koma fyrir nýrri brú á Hjálmá. Hún eykur öryggi þeirra sem ganga milli Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar.

„Þetta er gripur upp á rúm 700 kíló. Menn fara ekki með þetta á bakinu þótt þeir séu hraustir,“ segir Gunnar Sverrisson, formaður Gönguklúbbsins.

„Ég hafði samband við gæsluna til að útskýra málið og það var tekið mjög jákvætt í erindið. Þyrlusveitin notar það sem æfingar að hífa og setja eitthvað svona niður ef það er ekki í hagnaðarskyni.

Hjálmá er á Hjálmárdal og yfir þurfa þeir sem ganga milli Seyðisfjarðar og Loðmundarfjarðar að fara. „Þessi brú mun auðvelda aðgengi og auka öryggi. Fyrir þremur árum var ég staddur á Klyppstað í Loðmundarfirði þegar þangað komu tvær skelkaðar danskar stúlkur því önnur þeirra hafði lent í ánni við að reyna að vaða hana. Gjarnan er farið þarna yfir á klöppum en þarna er líka vað neðar því þetta er gömul þjóðleið. Þarna getur verið erfitt að fara yfir þegar mikið er í ánni,“ útskýrir Gunnar.

Árni Elísson, varaformaður, bendir á að enn sé farartálmi á leiðinni, áin í Kollsstaðadal upp af Selsstöðum í Seyðisfirði. „Sú brú verður lengri. Það er framtíðarverkefni fyrir klúbbinn,“ segir hann.

Þarf að geta staðið af sér vetrarfarg

Undirbúningur brúargerðarinnar hófst haustið 2019 þegar nokkrir félagar úr klúbbnum fóru og mældu fyrir brúnni á væntanlegu brúarstæði. Í byrjun árs 2020 var sótt um leyfi fyrir brúnni.

Klúbburinn hefur áður sett upp göngubrú yfir Vestdalsá en sú er heldur lengri en þessi. Teikningin var hins vegar sú sama. „Stefán heitinn Jóhannsson, sem áður vann í skipasmíðastöðinni, vann mikið fyrir okkur síðustu árin sem hann lifði og ég fékk hann til að teikna þetta upp. Ég fékk síðan son minn til að reikna burðarþolið og fleira.

Þessar brýr þurfa að þola snjófarg upp á einhverja metra sem síðan sígur niður í leysingum og eins þegar árnar hlaupa. Við höfum komið að brúnni upp á Vestdal þar sem mosi og drasl var uppi á handriðinu. Þá hefur komið bylgja á brúna en hún stóð það allt af sér,“ segir Gunnar.

Brúin sjálf var síðan smíðuð veturinn og vorið 2020. „Við fengum tvo járnsmiði, sem hættir voru að vinna, til að dunda sér við að smíða brúna í vetur og aðrir í klúbbnum máluðu hana,“ segir Gunnar.

Síðasta sumar fóru félagar í Gönguklúbbnum á staðinn og gerðu allt klárt fyrir brúna. Ekki náðist þó að hífa brúna þá en fyrir tíu dögum var stóri dagurinn runninn upp, þyrla gæslunnar kom á staðinn og hífði brúna á sinn stað.

Brúin hífð á sinn stað. Mynd: Elvar Snær Kristjánsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.