Þýðingar á Aðventu og smásögum Gunnars fá hæstu styrkina

Þýðingar á bókum Gunnars Gunnarssonar á annars vegar norsku, hins vegar hebresku, fengu hæstu styrkina þegar úthlutað var út Menningarsjóði Gunnarsstofnunar um helgina.

Annars vegar stendur til að þýða Aðventu til útgáfu í Ísrael, hins vegar tólf smásögur skáldsins til útgáfu í Noregi. Hvort verkefni fékk 400.000 króna styrk.

Þá fær Hnikun, bókverk þar sem unnið er með sögu Gunnarshúss á Skriðuklaustri og tengist sýningu sem sett verður upp í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, 300.000 króna styrk. „Dwelling on the banks of Jökla“ - könnun á sambandi mannfólks og ómennskrar náttúru við Jöklu, fær 100 þúsund.

Jafnframt veitir sjóðurinn Gunnarsstofnun styrk vegna nýrrar miðlunar á Skriðuklaustri til að koma Ugga litla Greipssyni úr Fjallkirkjunni yfir í viðaukinn veruleika (AR). Heildarúthlutun úr Menningarsjóði Gunnarsstofnunar þetta árið nemur 2,2 milljónum króna.

Menningarsjóður Gunnarsstofnunar var stofnaður árið 2013 af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þriggja manna stjórn stýrir sjóðnum en samkvæmt skipulagsskrá er tilgangur hans tvíþættur: annars vegar að renna stoðum undir starfsemi Stofnunar Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri með árlegum framlögum til hennar; hins vegar að styðja rithöfunda, listamenn, fræðimenn og námsfólk til verka er samræmast hlutverki Gunnarsstofnunar.

Í vor var auglýst eftir umsóknum með sérstaka áherslu á list- og miðlunarverkefni tengd austfirskum menningararfi og verkefni tengd ritverkum og ævi Gunnars Gunnarssonar.  

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.