Þjóðhátíðardagurinn: Rannsóknarsetur HÍ opnað á Breiðdalsvík

Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík verður opnað formlega á morgun. Í Gamla barnaskólanum á Eskifirði opnar listasýning og víða verður haldið upp á þjóðhátíðardaginn með einum eða öðrum hætti.

Jarðvísindi og málvísindi eru megináherslan í starfsemi nýs Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Breiðdalsvík og helstu verkefni munu lúta að rannsóknum og miðlun rannsóknarniðurstaðna, sem og kennslu og leiðbeiningu framhaldsnema. Fyrst um sinn verður áhersla setursins á jarðvísindi.

Setrið byggir á grunni Breiðdalsseturs, vísinda- og fræðaseturs Breiðdæla, og er starfrækt í nánu samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Á setrinu er haldið utan um borkjarnasafn Náttúrfræðistofnunar, sem einnig er staðsett á Breiðdalsvík. Í húsakynnum setursins, Gamla kaupfélaginu, er starfrækt safn helgað jarðfræði Austurlands, sögu Breiðdalsvíkur, og minningu tveggja fræðimanna sem höfðu sterk tengsl við Breiðdalinn, jarðfræðingsins Georges Walker og málvísindamannsins Stefáns Einarssonar.

Húsið verður opið frá klukkan 12-16 en klukkan 13:00 flytur nýráðinn forstöðumaður setursins, Tobias Björn Weisenberger, stutt ávarp. Við sama tækifæri veðrur ný jarðfræðisýning opnuð í húsnæði setursins.

Draugahundur á Eskifirði

Þann 17. júní opnar myndlistarsýning í Gamla Barnaskólanum á Eskifirði. Þetta er sýning sem Menningarstofa Fjarðabyggðar hefur unnið að því að koma í samstarfi við listkonuna Bjargeyju Ólafsdóttur, þannig að hér er um frumsýningu að ræða.

Klukkan 15:00 opnar listsýningin Draugahundur í Gamla barnaskólanum á Eskifirði. Sýningin samanstendur af tólf ljósmyndum af Samoyed hundum sem fengið hafa á sig draugablæ en hundakynið var upphaflega ræktað til að veiða, draga sleða og smala hreindýrum.

Verkin er eftir Bjargey Ólafsdóttir sem Austfirðingum að góðu kunn, en hún sýndi í fyrra á Seyðisfirði, Norðfirði og Skriðuklaustri. Hún rekur ættir sínar að Hafrafelli í Fellum þar sem hún dvaldi á sumrin í æsku en síðar hefur hún reglulega dvalist í gestavinnustofum eystra. Aðgangurinn að sýningunni er ókeypis og veðrur opin um helgar fram í lok júlí.

Fikt og fræði Péturs Kristjánssonar

Á sama tíma opnar Pétur Kristjánsson sýningu sína Fikt og fræði í Skaftfelli, Seyðisfirði en hún er sumarsýning miðstöðvarinnar og stendur fram til 5. september. Hann tekur síðan á móti gestum í listamannaspjall klukkan 15:00 á laugardag.

Pétur er menntaður búfræðingur og þjóðfræðingur en sjálfmenntaður í myndlist þótt hann hafi lengi unnið með Dieter Roth. Hann hefur búið á Seyðisfirði frá því á 9. áratugnum og stýrði Tækniminjasafni Austurlands þangað til nýverið og átti auk þess drjúgan þátt í að koma á fót Skaftfelli og Dieter Roth Akademíunni.

Pétur vinnur oft með hluti sem falla til í samfélaginu og gefur þeim nýtt líf í gegnum listina. Upphaflega átti sýningin að haldast í hendur við starfslok Péturs við Tækniminjasafnið en Covid-faraldurinn og aurskriðurnar á Seyðisfirði settu strik sinn í reikninginn. Mörg eldri verka hans voru geymd í einu húsanna sem eyðilögðust 18. desember. „Um leið og við syrgjum horfin menningarverðmæti fögnum við því að uppspretta sköpunar á sér engin takmörk og nýjar hugmyndir koma í staðinn,“ segir í tilkynningu.

17. júní

Hefðbundnari 17. júní hátíðahöld verða í fimm þéttbýliskjörnum á Austurlandi.

Á Vopnafirði verður hátíðadagskrá við skólann klukkan 14:00, á Djúpavogi verður lagt af stað í skrúðgöngu 12:30 og dagskrá á Neistavelli frá 13:00. Seyðfirðingar ætla að leggja af stað eftir Regnbogagötunni á sama tíma og ganga inn í félagsheimilið Herðubreið þar sem formleg dagskrá verður.

Í Fjarðabyggð verður haldið upp á daginn á Eskifirði. Hátíðadagskráin sjálf hefst 13:15 á Eskjutúnin en verður flutt inn í Valhöll ef þarf vegna veðurs.

Á Egilsstöðum er barnadagskrá í Tjarnargarðinum frá 11-14 og hátíðadagskrá í íþróttahýsinu 13:00. Brauðtertukeppni verður svo í Sláturhúsinu klukkan 16:00. Þar, líkt og hinum stöðunum, eru síðan ýmsir viðburðir í boði fyrir bæði börn og fullorðna þessu utan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.