„Þetta verður skemmtilegur kokkteill“

„Við erum komin á fermingaraldurinn,“ segir Áskell Heiðar Ásgeirsson, en miðasala á fjórtándu Bræsluna hefst klukkan tíu í fyrramálið.


„Þetta er alltaf skemmtilegur árstími, þegar allir eru að peppa sig upp í þetta og tilhlökkun komin í mannskapinn,“ segir Áskell Heiðar, en hann deilir „bræðslustjóraembættinu“ með bróður sínum Magna Ásgeirssyni.

Listamenn Bræðslunnar að þessu sinni verða Emmsjé Gauti, Agent Fresco, Be­tween Mountains, Daði Freyr, Atomstation og Stjórnin – en í viðtali á Vísi sagði Magni að Stjórnin bæri einmitt ábyrgð á fjórum frænkum sínum og gríðarlega góðu hjónabandi Heiðars bróður hans, sem einmitt hefði kynnst konunni sinni á Stjórnarballi.

„Það er nú kannski helst til djúpt í árina tekin, en þó vissulega sannleikskorn í því hjá Magna. Manni hefði í það minnsta þótt það merkileg saga fyrir 25 árum þegar maður elti sveitaböll með Stjórninni um allt land, að þau myndu einhverntíman spila á Borgarfirði og hvað þá í bræðslunni.“

Heiðar segir að þau bönd sem hafi lifað hve lengst á Íslandi og séu enn að, verði þá öll búin að splia á Bræðslunni eftir sumarið í sumar, að Sálinni hans Jóns míns undanskilinni, en áður hafa Nýdönsk, Todmobile og Síðan skeið sól stigið á stokk á Borgarfirði.

„Það er gaman fyrir okkar aldurshóp að bjóða upp á þessu bönd, þó það sé nú aldrei meiningin að hafa þetta eintóma nostalgíu. Í ár verðum við svo einnig með tónlistarfólk sem var ekki einu sinni fætt þegar þessi bönd voru upp á sitt besta, þannig að þetta verður skemmtilegur kokteill.“

Takmörkuð auðlind
Mörgum er í fersku minni óveðrið sem gekk yfir Austurland á Bræðslunni í fyrra. Heiðar segist ekki kvíða veðrinu í ár. „Í fyrra fengum alvöru borgfirska norðaustan átt eins og hún gerist verst, í skiptum fyrir öll hin tólf skiptin sem var sól. Við vonum að sjálfsögðu bara að þetta hafi verið einhver ólukka í þrettánda árinu og stefnum á tólf sólarár framundan.“

Heiðar hvetur Bræðsluunnendur að vera fyrir framan tölvuna klukkan tíu í fyrramálið þegar miðasala hefst, en yfirleitt selst upp á hátíðina á nokkrum dögum. Miðarnir verða seldir á nýjum vef í ár.

„Við náðum ákveðnum þolmörkum á stærð hátíðarinnar fyrir tíu árum og höfum ekki farið umfram þau síðan og ætlum okkur ekki að gera það, þannig að segja má að þetta sé takmörkuð auðlind sem fer fljótt.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar