„Þetta snýst um að upplifa og skynja“

Sigrún Yrja Klörudóttir, kennari á Reyðarfirði, heillaðist af skynjunarleikjum fyrir ungabörn þegar hún sá aðra foreldra nota slíka leiki með börnum sínum. Nú í lok mánaðarins gefur hún út út rafbók um skynjunarleiki fyrir ungabörn sem hún byggir á sinni vinnu og athugunum.


Sigrún Yrja segist hafa byrjað þegar hún var í fæðingarorlofi með yngra barni sínu. „Undir lok orlofsins fór ég að spá meira í leiki barna. Þegar ég uppgötvaði skynjunarleiki fattaði ég hvað þeir eru mikilvægir fyrir börn. Öll skynfæri þeirra eru svo virk og miklu meira í gangi en hjá okkur fullorðna fólkinu,“ segir hún.

Upplifa og skynja
Skynjunarleikir snúast um að börn fái að skynja ólíka hluti. Eins og að fá að setja höndina í hrísgrjón, vatn og fleira. „Þegar dóttir mín var eins árs gat hún kannski dundað sér í upp undir klukkutíma í þessum leikjum. Bara að fá að fikta, pota og koma við.“

„Þau ráða ferðinni í leikjunum. Það er engin lokaútkoma eða markmið. Þetta snýst bara um upplifa og skynja. Þau uppgötva hvað þau geta gert með viðfangsefnið og svo þróast þetta kannski í að moka og hella á milli.“

Nýverið hélt Sigrún námskeið í skynjunarleikjum fyrir foreldra ungabarna. „Á námskeiðinu voru börn á aldrinum 9 til 12 mánaða. Ég byrjaði á smá fræðslu fyrir foreldra og svo fengu börnin að leika sér í skynjunarleikjum. Þetta gekk mjög vel og foreldrunum fannst þetta fróðlegt og gagnlegt.“

Áhrif á þroskaferlið
Sigrún segir leikina stuðla að auknum heilaþroska. „Það að skynfærin séu virkjuð svona, býr til greiðari tengingar í heilanum. Þetta hefur góð áhrif á heilaþroska og bara allan þroska barna. Svo eru þeir ofboðslega góðir fyrir fín- og grófhreyfingar og samhæfingu ungra barna.

Ég myndi segja að þetta séu leikir sem börn á aldrinum 0 til 2 ára ættu að vera stunda.“
Sigrún stefnir að því að gefa út bók um lok skynjunarleiki í lok mars. „Bókin byggir á minni vinu. Hluti bókarinnar er um skynjunarleiki og gagnsemi þeirra.

Í henni verða líka mörg góð ráð fyrir foreldra sem eru að stíga sín fyrstu skref í að setja upp skynjunarleiki og ótal hugmyndir að slíkum leikjum.

Hún hefur þegar hafið forsölu á bókinni sem hægt verður að nálgast í gegnum heimasíðu hennar, alwaysremembertoplay.com/.

Veggspjöld
Sigrún er líka að læra grafíska hönnun og hefur verið að hanna litrík veggspjöld, annars vegar með bókstöfum, hins vegar tölustöfum.

„Mig langaði í litrík veggspjöld inn á leiksvæði barnanna minna en ég fann hvergi rétta veggspjaldið. Því ákvað ég að hanna það sjálf. Þau er hönnuð með lesblinduletri til að gera börnum auðveldara fyrir. Það er til dæmis auðveldara að átta sig á muninum á B og D fyrir þá sem eru að lesa og er lesblindir.

Það er gaman að fylgjast með stráknum mínum sem er að verða fimm ára. Hann er mikið að spá í stöfunum og af því að þetta eru svo litrík spjöld þá get ég notað litina til að hjálpa honum að finna stafina. Ég spyr hann kannski hvar bókstafurinn P sé á spjaldinu og get þá leiðbeint honum og sagt honum að hann sé í grænu línunni,“ segir hún.

Talnaspjaldið var næsta skref. Hugmyndin að baki því er sú að krakkar átti sig mögulega ekki á fjöldanum sem liggur á bakvið hverja tölu. „Tölustafurinn segir manni svo lítið en að sjá kannski átta punkta hjá tölustafnum auðveldar manni að tengja betur við töluna sjálfa. Sem er auðvitað algjör snilld.“

Leik og leiksvæði
Sigrún heldur úti síðu á Facebook sem heitir Leikur og leiksvæði barna. Á síðunni eru þemaskiptir mánuðir. „Í síðasta mánuði var þemað einmitt skynjunarleikir og í þessum mánuði eru að það hlutverkaleikir. Þá erum við komin í eitthvað allt annað. Þeir er meira fyrir 18-24 mánaða gömul börn.

Leikurinn hjá þeim þróast og við erum að skoða það núna. Það er búið vera rosalega gaman að sjá hvað aðrir eru að gera og fá hugmyndir frá öðrum,” segir Sigrún að lokum.


Dóttir Sigrúnar gleymir sér í skynjunar leik. 

Annað dæmi um skynjunarleik. Myndirnar tók Sigrún Yrja.

 

Sigrún Yrja ásamt syni sínum. Mynd: Myndsmiðjan/KOX

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.