„Þetta er í senn spennandi og ógnvekjandi fyrir mig“

Gítarleikarinn Jón Hilmar Kárason frá Neskaupstað mun á næstu vikum ferðast aðeins um Austurland og spila á tónleikum sem hann kallar Hinsegin.

Um er að ræða þrenna tónleika; á Reyðarfirði 21. júlí, Neskaupstað 22. júlí og Vopnafirði 23. júlí.


„Þetta er í fyrsta sinn sem ég held tónleika sjálfur. Ég hef auðvitað komið fram sem trúbador en þessir tónleikar verða ekki með slíku sniði. Ég ætla að syngja nýja tónlist sem ég hef verið að semja, segja sögur og svo verða gítarhetjustælarnir ekki langt undan,“ segir Jón Hilmar léttur í bragði.


Nýlega gaf hljómsveitin Senga’s Choice út plötuna Ideas & Secrets en Jón gítarleikari í þeirri sveit og lagahöfundur. „Við höfum fengið alveg frábærar viðtökur við þeirri plötu. Tónlistin sem ég ætla að flytja á tónleikunum í næstu viku er þó af öðrum toga en á plötunni. Ég er vanur því að standa upp á sviði með heilli hljómsveit og þarf ekki að tjá mig eða syngja frekar en ég vil. Á tónleikunum í næstu viku verða hins vegar öll augu og eyru á mér. Ég hef gaman að því að prófa nýja hluti en þetta er í senn spennandi og ógnvekjandi fyrir mig,“ segir Jón að endingu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.