„Þegar maður gerir hluti þarf bara að gera þá almennilega“

„Austurlandið skipar svolítið stóran sess hjá mér sjálfri, en ég ólst upp á Seyðisfirði þrjú fyrstu árin mín, þar sem pabbi minn var prestur og foreldrar mínir hófu sambúð,“ segir María Magnúsdóttir, forsprakki hljómsveitarinnar MIMRA sem er að hefja tónleikaferð um landið. Sveitin spilar á þremur stöðum á Austurlandi í kringum næstu helgi.


María er nýútnefndur bæjarlistamaður Garðabæjar, en auk hennar skipa þær Sylvía Hlynsdóttir og Jara Holder hljómsveitina MIMRA. Á tónleikaferðalaginu kynnir sveitin plötu sína Sinking Island. „Tónlistin er í „alternative-folk“ stíl, „orchestral popp“ á stórum skala en samt sem áður einlæg, vönduð og lætur engann ósnortinn,“ segir María en platan kom út í fyrra og hefur henni verið vel tekið. Textar plötunnar eru að miklu leiti sprottnir frá reynslu Maríu eftir sambandsslit þegar fyrrverandi maður hennar kom út sem transkona.

Þótti mikilvægt að spila í Seyðisfjarðakirkju
MIMRA verður með tónleika í Beljanda á Breiðdalsvík sunnudaginn 10. júní, í Fjarðarborg á Borgarfirði Eystri þriðjudaginn 12.júní og í Seyðisfjarðarkirkju miðvikudaginn 13.júní. Allir tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

„Þó svo ég muni lítið eftir búsetu minni fyrir austan eru fyrstu minningar mínar engu að síður þaðan og ég fæ alltaf svolítið hlýtt í hjartað að koma á Seyðisfjörð. Þess vegna fannst mér mikilvægt að spila í Seyðisfjarðarkirkju, en það er eina kirkjan sem við spilum í.

Verður hrikalega gaman að fara hringinn
„Ég hef aldrei áður spilað fyrir austan eða mikið á landsbyggðinni þannig að það verður hrikalega gaman að fara hringinn og kynna tónlist MIMRU,“ segir María, en sveitin ætlar sér að halda til í hjólhýsi á ferðalagi sínu.

„Í rauninni var það þannig að þegar ég ákvað að skipuleggja tónleikaferðalag um landið ákváðum við dagsetningarnar eftir því hvenær hljómsveitarmeðlimir væru lausir í sumar og hvenær við gætum fengið hjólhýsi tengdafjölskyldunnar lánað, frekar fyndið. Svo plönuðum við bara tónleika í kringum það.

Tónleikarnir áttu í upphafi ekkert endilega að verða svona margir en þetta varð úr. Þegar maður gerir hluti þarf bara að gera þá almennilega. Engu að síður er þetta að hluta til útilega og hluta til tónleikaferðalag. Við erum fimm vinir saman á ferðinni og hlökkum gríðarlega mikið til að spila og tjalda Við stoppum svolítinn tíma í fegurðinni fyrir austan,“ segir María, en fylgjast má með ferðinni á Instagram.

Forsíðumynd: Tinna Schram.

MIM RoadtripTour band

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.