„Þarf að prófa hestana fjórum sinnum“

Á bænum Finnsstöðum í Eiðaþinghá hafa þau Sigurður Jakobsson og Helga Guðrún Sturlaugsdóttir rekið hestaleigu undanfarin fimm ár. Helga Guðrún var sjálf orðin fertug þegar hún byrjaði að stunda hestamennsku og segir það kost þegar hún er að leiðseigja óvönum.

„Ég átti bara einn hest. Ég vildi bara vera á honum í hnakknum mínum. Ég hélt þetta væri eini góði hesturinn í heiminum,“ segir Helga Guðrún í þættinum Að austan sem sýndur var á N4 í gærkvöldi.

Hún og Sigurður keyptu Finnsstaði ásamt tveimur öðrum fjölskyldum árið 2017. „Þetta var skyndiákvörðun tekin af tilviljun. Við vorum að fara að passa folöld fyrir fyrri eigendur og þegar við komum til að skoða aðstæður kom upp sú hugmynd að kaupa.“

Helga segir þau hafa lært af reynslunni, ekki sé til nein handbók um hvernig eigi að leiðseigja fólki í hestaferðum. Helga segist mikið styðjast við eigin reynslu.

„Við Siggi erum mjög ólík, ég held hann hafi aldrei verið hræddur á hesti en ég verð það hins vegar mjög auðveldlega. Ég finn strax ef hesturinn er eitthvað óöruggur og nota hann þá ekki.

Ég vil bara trausta og góða hesta í leiguna. Ég þarf að prófa þá fjórum sinnum. Það ríkir oft mikil spenna hjá þeim sem koma með hesta til okkar fyrir því hvernig ég bregst við,“ segir hún.

Í útreiðartúrum er farið um nánasta umhverfi Finnsstaða. „Hér eru mjög fallegar reiðleiðir. Við getum farið meðfram Lagarfljótinu eða upp í fjall í gegnum skóg og dæmigert íslenskt landslag með birkitrjám. Síðan er mjög sérstakt að fara um í bjartri sumarnótt, um eða eftir miðnætti.“

Á Finnsstöðum er líka húsdýragarður enda ekki allir í ferðahópunum sem vilja fara á hestbak. Þar er líka verið að innrétta gömlu hlöðuna fyrir móttökur auk þess sem fótboltagolfvöllur er á svæðinu. „Mig hafði svo lengi langað að hafa dýragarð sem fólk gæti farið og komið við dýrin. Mér dugði aldrei að horfa bara á þau í búrunum. Við höfum líka fundið að við þurfum að hafa eitthvað fyrir nærumhverfið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.