„Það þarf fólk eins og ykkur fyrir félag eins og okkar“

Krabbameinsfélagi Austfjarða voru í gær afhent rúmlega ein og hálf milljón króna sem safnað var í áheitagöngu eldri borgara í Fjarðabyggð og Djúpavogshreppi í sumar. Formaður Krabbameinsfélagsins segir ómetanlegt fyrir góðgerðarfélög að hafa slíkt bakland.

Gengið var undir merkjum „Enn gerum við gagn“ að frumkvæði Jaspis, félags eldri borgara á Stöðvarfirði sem fékk önnur félög á svæðinu til samvinnu.

Í áföngum var gegnið frá Dalatanga að Þvottárskriðum, út á annes og upp eftir helstu fjallvegum, alls tæplega 370 km. Gangan hófst á Reyðarfirði þann 1. maí og lauk með göngum í Mjóafirði og grillveislu 23. júní.

409 göngumenn tóku þátt, en sumir eru tvítaldir þar sem þeir gengu fleiri en einn legg. Með þeim voru 53 aðstoðarmenn og alls voru gengnir 1366 km.

„Þetta er breiður aldurshópur sem hefur gengið, allt frá 60-87 ára. Það hefur verið gengið með bros á vör. Ég hef aldrei heyrt annað en gleði gagnvart þessari göngu sem alls staðar hefur verið tekið svo vel. Ég er glöð og stolt yfir hvað við höfum gert þetta stóra verkefni, sem við fórum af stað með, yndislega. Við eigum örugglega eftir að sameina krafta okkar í annað verkefni á næstunni,“ sagði Hlíf Herbjörnsdóttir, formaður Jaspis á Stöðvarfirði í gærkvöldi.

Hún afhenti Jóhanni Sæberg, formanni Krabbameinsfélags Austfjarða, alls 1.519.500 krónur sem söfnuðust með áheitum á göngufólk.

„Það er margt sem kemur upp á þegar fólk veikist og það er ómetanlegt að eiga félög eins og þetta sem gera eitthvað fyrir okkur. Þetta eru gríðarmiklir peningar fyrir okkar félag. Það þarf fólk eins og ykkur fyrir félög eins og okkar,“ sagði Jóhann.

Vill að fleiri nýti sér þjónustuna

Jóhann sagði að félagið hefði ekki bara hag af áheitafénu sem safnaðist heldur athyglinni sem átakið vekti á starfsemi félagsins. Því miður væri það svo að of fáir þeirra sem veiktust af krabbameini vissu af eða nýttu sér þjónustu þess.

„Það kostar mikla peninga að veikjast. Við erum í stakk búin, ekki síst fyrir atbeina svona félaga, að hjálpa fólki. Ég þekki það af eigin raun að þetta er sálarstríð því í hugum margra er þetta dauðadómur en sem betur fer læknast flestir. Þetta er ekki einfalt en félagið býður til dæmis tíma hjá sálfræðingum.

Það er ómetanlegt fyrir okkur að fá stuðning sem þennan og sjálfsagt að við verjum honum eins og við getum til góðra verka.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.