Orkumálinn 2024

„Þetta eru bara verk sem við elskum“

Það er alltaf öðruvísi að koma fram í heimabyggð, á þeim stöðum sem standa manni nær en aðrir,“ segir söngkonan Tinna Þorvalds Önnudóttir sem heldur þrenna tónleika á Austurlandi ásamt píanóleikaranum Öldu Rut Garðarsdóttur á næstunni.


„Við eigum báðar djúpar rætur fyrir austan og fannst á einhvern hátt mikilvægt að gefa til baka til þeirrra staða og samfélaga sem hafa gefið okkur mikið og hvað þá uppeldissamfélagsins,“ segir Tinna sem er mezzusópran, en Alda Rut er uppalin og búsett á Stöðvarfirði og móðir Tinnu einnig.

 „Við höfum tvisvar sinnum áður haldið tónleika saman á svæðinu, annars vegar sumarið 2015 og hins vegar sumarið 2016. Í bæði skiptin voru það stakir tónleikar sem haldnir voru í Stöðvarfjarðarkirkju. Okkur langaði að gera þetta aftur í sumar og þá aðeins stærra í sniðum og koma fram á fleiri stöðum,“ segir Tinna, en þær koma fram í Egilsstaðakirkju miðvikudaginn 21. júní klukkan 20:00, í Eskifjarðarkirkju sunnudaginn 24. júní klukkan 16:00 og í Stöðvarfjarðarkirkju fimmtudagskvöldið 28. júní klukkan 20:00. Fyrstu tónleikarnir eru hluti af tónleikaröðinni Tónlistarstundum á Egilsstöðum og seinni tveir tónleikarnir eru styrktir af Fjarðabyggð.

Völdu verk sem snertu þær báðar
Þær Tinna og Alda Rut munu á tónleikinum flytja nokkur af sínum eftirlætis tónverkum. „Tónlistin sem við munum flytja er allt frá íslenskum sönglögum eftir Jórunni Viðar og Jón Leifs til aría eftir Bach, en einnig koma fyrir ljóð eftir Richard Strauss, Hector Berlioz og Manuel de Falla.

Við mótuðum þessa dagskrá með því að deila með hvor annarri okkar uppáhalds tónlist, velta henni á milli okkar og völdum svo þau verk sem snertu okkur báðar. Þetta eru bara verk sem við elskum, án þess að hægt sé að útskýra það neitt nánar. Enda stoðar lítið að reyna að rökstyðja ástina, hún bara er. Við viljum hvetja alla til þess að mæta og njóta, aðgangur er ókeypis en frjáls framlög velkomin.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.