Orkumálinn 2024

„Þetta er óskaplega mikil heilaleikfimi“

„Maður verður heltekinn af línudansinum. Sumir kjósa að hlaupa og verða að hlaupa til að ná upp orkunni sinni en við bara dönsum og dönsum,“ segir Sigríður Elísa Jónsdóttir, forsprakki línudanshópsins frá Hlymsdölum, félagsmiðstöð eldri borgara á Egilsstöðum, sem keppti í línudansi á Landsmóti UMFÍ 50 ára og eldri á Sauðárkróki um miðjan júlí.


„Okkur gekk bara vel á Landsmótinu. Við fengum að vísu ekki verðlaun en það skiptir engu máli. Við fórum og það er aðalatriðið. Þetta var rosalega mikið átak fyrir fólk sem í flestum tilfellum er ekki vant að koma fram. Ætli sú elsta í hópnum sé ekki 86 ára gömul. Það voru alls fjórtán dansarar og ég fór með til að dást að þeim sem ég gerði svo sannarlega,“ segir Elísa, sem heldur utan um hópinn og kennir dansinn í Hlymsdölum.

Elísa hefur dansað línudans í 22 ár. „Við erum tvær í hópnum sem höfum dansað svona lengi. Það var alltaf línudanshópur starfandi á Egilsstöðum og til skamms tíma voru einnig hópar á Höfn, Breiðdalsvík, Fáskrúðsfirði og Vopnafirði. Á þeim tíma héldum við vormót austfirskra línudansara en það var virkilega skemmtilegt. Hópurinn á Egilsstöðum hélt svo lengur áfram en síðustu ár höfum við aðeins verið innan Hlymsdala. Sjálf ætla ég að dansa línudans svo lengi sem ég hreyft fæturna,“ segir Elísa sem sjálf er 71 árs.

„Maður verður heltekinn af línudansinum“
Elísa á ekki í vandræðum með að svara því hvað það er sem heilli við línudansinn. „Það er bara óskaplega gaman að dansa og ef maður hefur ekki dansfélaga þá er línudansinn alveg kjörinn en í honum dansar maður bara einn og óstuddur. Þetta eru allt saman sérsamdir dansar með ákveðnum sporum, allir þátttakendur eru í línum og gera það sama. Línudans er ótrúlega erfiður en óskaplega góður fyrir eldra fólk. Í fyrsta lagi þarf maður að hafa fulla stjórn á hreyfingunum og koma boðunum úr höfðinu niður í fæturna. Svo þarf að nota hendurnar til þess að halda jafnvæginu því annars getur maður bara dottið á hliðina. Læra þarf utan að á bilinu 30-40 hreyfingar í hverjum dansi og við erum að dansa allt upp í 50 dansa hjá okkur. Þetta er óskaplega mikil heilaleikfimi.“

Óskar eftir nýjum kennara
Elísa segist alltaf vera að bíða eftir að einhver yngri komi og taki við kennslunni af henni svo hún geti farið að njóta þess að dansa sjálf með hópnum. „Ég sé fram á að þetta verði of erfitt fyrir mig þegar fram líða stundir, að dansa alla dansana, tala í leiðinni og telja taktinn. Ég lýsi því hér með eftir áhugasamri manneskju til þess að taka við verkefninu af mér,“ segir hún og hlær.

Ekki er langt í næsta verkefni hjá danshópnum. „Strax eftir verslunarmannahelgina hefjast æfingar hjá okkur því búið er að biðja okkur að dansa á kvöldskemmtun á Ormsteiti,“ segir Elísa en þá gefst öllum tækifæri á að sjá þennan glæsilega danshóp.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.