„Þetta er gríðarlega viðkvæmt mál“

„Þetta var allt miðað við það að nota efni úr mínu safni og fljótlega kom þessi hugmynd upp,“ segir Þórarinn Hávarðsson um væntanlega heimildamynd um snjóflóðin sem féllu í Neskaupstað árið 1974.


Myndin nefnist Háski – Fjöllin rumska og framleiðir Þórarinn myndina ásamt syni sínum Eiríki Hafdal, en þeir sendu frá sér myndina Háski í Vöðlavík fyrir þremur árum.

Þórarinn segir tildrög hennar vera þau hve sterk viðbrögð Háski í Vöðlavík fékk og fjölmargir spurðu hvað þeir ætluðu að gera næst. Sjálfur var Þórarinn myndatökumaður á fréttastofu Ríkissjónvarpsins um margra ára skeið og á því sjálfur mikið af gömlu efni, meðal annars tengdu þessu viðfangsefni.

„Við vorum reyndar alveg skíthræddir, þetta er enn alveg gríðarlega viðkvæmt þrátt fyrir að allur þessi tími sé liðinn. Okkur óaði við þessu, einnig vegna umfangsins, fjölda viðmælenda og fjarlægð frá okkar búsetu. En þegar við vorum búnir að velta þessu fram og til baka, ég er fæddur og uppalinn á Norðfirði og man vel eftir þessu, þá ákváðum við bara að stökkva,“ segir Þórarinn.

Fólk vill að sagan sé sögð
„Þetta er gríðarlega viðkvæmt mál sem eðlilegt er, fólk hefur ekki talað mikið um þetta eða unnið sig út úr sorginni og því sem það upplifði á þessum tíma. Við fundum snemma að þarna var komin þörf fyrir að segja frá því endanlega hvernig þetta var. Það eru komin yfir 40 ár og fólk sem upplifði þetta er farið að týna tölunni. Það vill geta sagt sína sögu, það vill að fólk muni eftir þessu og það hefur verið mjög velviljað að gera það. Við höfum fundið að það er erfitt að tala um þetta og viðfangsefnið ber að nálgast með varfærni,“ segir Eiríkur.

Frumsýning í Neskaupstað í nóvember
Myndatökur hófust í apríl 2016 og áætlað er að frumsýna myndina í Neskaupstað í nóvember. „Niðurstaðan varð svo sú að við ákváðum að kafa dýpra og lengra aftur í tímann, þannig að við erum með myndefni frá Neskaupstað aftur til ársins 1966 og erum komnir með mikið myndefni sem ekki hefur komið fyrir almenningssjónir áður. Þetta verður þriggja þátta sería þar sem við kynnum staðinn eins og hann var fyrir snjóflóð, fjöllum svo um flóðið sjálft og svo ofanflóðavarnir.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar