„Þetta er bara einhver árátta sem maður fæðist með“

Sólveig Sigurðardóttir er ein þeirra sem tók þátt í vorsýningu Skaftfells, myndlistarmiðstöðvar Austurlands á Seyðisfirði í ár. Þar sýndu Seyðfirðingar hluti sem þeir hafa safnað í gegnum tíðina, allt frá ritvélum til vespubúa, og segja má að sýningin hafi svo sannarlega endurspeglað fjölbreytta mannlífsflóru staðarins. 

 

Sólveig átti eitt og annað á sýningunni, svo sem leikaramyndir, bíóprógrömm, merkta penna, servíettur og fleira. „Þetta er bara einhver árátta sem maður fæðist með, að glata ekki fortíðinni heldur geyma pínu snefil af henni. Ekki að ég sé endilega að safna hlutum, heldur hendi ég ekki svona dóti,“ segir Sólveig sem byrjaði strax sem barn að safna fallegum steinum, en hún ólst upp á Húsavík. 

„Ég fór líka annað slagið í bíó og keypti alltaf bíóprógrömm. Vinkonur mínar voru svo að safna servíettum og leikaramyndum og ég gerði bara eins, þannig að segja má að söfnin mín hafi óvart orðið til, frekar en ég hafi tekið ákvörðun um að safna einhverju,“ segir Sólveig.

Mest annt um leikaramyndirnar
Leikaramyndirnar sem um ræðir voru litlar myndir af frægum leikurum og hljómsveitum þess tíma, seldar nokkrar saman í pakka, líkt og fótboltaspjöld í dag. „Þetta voru myndir af öllum þekktustu leikurunum, á borð við Elvis Presley og Sophiu Loren. Einnig af öllum hljómsveitunum: Bítlunum, Rolling Stones og fleirum. Myndapakkana keyptum við í bókabúðinni og svo sátum við og býttuðum, létum frá okkur aukamyndir á móti öðrum sem við áttum ekki. Ætli ég hafi ekki verið í kringum tíu ára gömul þarna og líklega má segja að leikaramyndirnar hafi verið upphafið af söfunaráráttu minni,“ segir Sólveig, sem segir að leikaramyndirnar séu þeir hlutir sem henni er mest annt um af safnadótinu.

„Ég lánaði hluta myndanna suður á sýningu til Reykjavíkur á sínum tíma. Myndirnar voru settar á spjald upp á vegg og stór plastplata var skrúfuð föst yfir þær. En þrátt fyrir það náði einhver aðili að skrúfa plötuna lausa og ná til sín myndum af neðri hluta spjaldsins á opnunartíma sýningarinnar. Eftir þetta hef ég verið varkárari að lána muni á sýningar og geri kröfur um að slíkt hendi ekki aftur.“


Geymir gamla peninga
Sólveig hefur einnig haldið upp á gamla peninga gegnum tíðina. „Ég var ekki gömul þegar ég byrjaði að vinna, hef líklega verið kringum sjö ára þegar ég fór að stokka bjóð hjá kunningja pabba. Ég man enn eftir fyrsta seðlinum sem ég fékk útborgaðan, rauður tíu króna seðill, sem mér þótti alveg æðislegur og miklir peningar. Ég hef síðan geymt seðla og smápeninga í hvert skipti sem skipt hefur verið um mynt, sem hefur gerst þrisvar eða fjórum sinnum á minni ævi. Þetta safn hef ég aldrei sett upp eða sýnt, ég bara geymi það hjá mér.“

Safnar gömlum ljósmyndum
Þá hefur Sólveig haft óbilandi ljósmyndabakteríu síðan hún man eftir sér. „Ég keypti mér fyrstu myndavélina þegar ég var tíu ára. En það var svo dýrt að kaupa filmur og framkalla þær í þá daga að ég tók ekki eins mikið af myndum og ég hefði viljað. En þegar ég varð eldri þá dreymdi mig oft sama drauminn, þar sem mér var ætlað að safna saman gömlum myndum. Ég sagði foreldrum mínum frá þessu. Pabbi svaraði því til að best væri að ég tæki gömlu myndirnar þeirra, ég gæti byrjað á þeim. Ég áttaði mig fljótt á því að ég þekkti fæsta á þeim myndum, m.a. skólasystkini þeirra og fleiri vini. Við settumst því saman og skráðum nöfn og upplýsingar um myndirnar. Eftir það gerði ég það sama hjá tengdafjölskyldunni og síðar með fleirum. Ég hef fengið leyfi til þess að birta flestar myndirnar á netinu svo að ættingjar og vinir geti notið þeirra. Margir virðast hafa gaman af því, eins og ég, og sumir hafa síðan fært mér fleiri gamlar myndir.“

Stefnir á að koma söfnunum sínum á safn
Sólveig segist vera farin að huga að því að losa sig við safnmunina sína á önnur söfn. „Ég vil ekki að börnin mín sitji uppi með þetta allt, ef ég hrekk uppaf einn góðan veðurdag. Ég hef sjálf verið að fara gegnum dót látinna foreldra minna og einnig dót frá afa mínum, sem var m.a. rithöfundur og tók mikið af viðtölum við fólk á kasettur. Hann bjó síðustu árin hjá foreldrum mínum. Áður en faðir minn lést bað hann mig að taka við dótinu sem afi skildi eftir, þannig að það hefur verið mitt hlutskipti undanfarið að fara í gegnum það, skrásetja og koma því áfram á söfn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar