Orkumálinn 2024

Telja sig eiga nógu mikið af góðri tónlist til að gefa út breiðskífu

Pönksveitin DDT skordýraeitur hyggur á útgáfu sinnar fyrstu breiðskífu í haust. Hljómsveitarmeðlimir segjast eiga úrval af góðum lögum sem tími sé kominn á að færa í varanlegt form.

„Við höfum framleitt mikið af góðri tónlist. Lagalistinn okkar telur orðið 25 lög og við stefnum á að taka upp 15 laga plötu,“ segir Pjetur St. Arason.

Hljómsveitin var stofnuð á haustmánuðum 2015 „eftir að hljómsveitarmeðlimir gáfust upp á að flytja gömlu dansana,“ að því er segir í kynningu á sveitinni. Hún gaf síðan út fimm laga stuttskífu fyrir jólin 2017 sem hlaut nafnið Bless Aleppo. Lögin af henni verða einnig á nýju breiðskífunni.

Skífan er nú uppseld en aðgengileg í gegnum streymisveituna Spotify. „Tekjurnar streyma þaðan,“ segir Pjetur.

Eins og tíðkast með pönksveitir eru textar sveitarinnar beittir. Yrkisefnin eru fjölbreytt þótt pólitíkin sé þar áberandi en nefna má umhverfismál, styrjaldir og gagnrýni á fíkniefnaneyslu.

Hljómsveitarmeðlimir segja flest lögin samin í sameiningu en viðurkenna þó að flest þeirra eigi uppruna sinn hjá Guðmundi Arnari Guðmundssyni. „Hann á orðinn fullan skáp af lögum og textum. Við erum aðeins að grynnka á því,“ útskýrir Þorvarður Sigurbjörnsson.

Hópfjármögnun breiðskífunnar stendur nú yfir á Karolina Fund sem lýkur eftir viku. Gangi hún að óskum hefjast upptökur í Stúdíó Síló á Stöðvarfirði í haust. Stefnt er á útgáfu 1. nóvember. „Í kjölfarið verða síðan útgáfutónleikar í Egilsbúð. Platan er hugsuð til að gefa hana í skóinn, fjórtándi jólasveinninn kemur með hana.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.