„Taskan mín hefur oftar en ekki verið kölluð svartholið"

„Nýja hlutverkið leggst mjög vel í mig, ég er full bjartsýni fyrir komandi hátíð og hlakka til að takast á við það verkefni að gera Eistnaflug að enn betri,“ segir Magný Rós Sigurðardóttir, nýráðin framkvæmdastýra Eistnaflugs. Hún er í yfirheyrslu vikunnar.

 

Magný Rós segist hafa verið aðdáandi hátíðarinnar lengi og verið og sjálf verið fastagestur frá árinu 2011. Hvað er það sem heillar? „Það sem heillar mig mest er fólkið sem mætir á hátíðina, samstaðan og vináttan sem er orðin hluti af menningu hátíðarinnar. Eistnaflug er staður þar sem enginn er skilinn útúndan og fólk er metið að verðleikum. Síðast en ekki síst eru það heimamenn og allt hið frábæra starfsfólk sem gera hátíðina að því sem hún er í dag.“

Sér Magný Rós fyrir sér að breyta einhverju í sinni setu? „Áherslan verður alltaf sú sama að halda fjölbreytta þungarokkshátíð þar sem bannað er að vera fáviti.“

Fullt nafn: Magný Rós Sigurðardóttir.

Aldur: 39 ára.

Starf: Nýráðin framkvæmdastýra Eistnaflugs og bókasafns- og upplýsingafræðingur hjá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

Börn: Á eina tvítuga dóttur sem heitir Steinunn Alexandra Magnýjardóttir.

Hver er þinn helsti kostur? Ég er skipulögð (enda bókasafnsfræðingur). Ég vinn vel undir álagi og á auðvelt með að sjá það góða í fólki.

Hver er þinn helsti ókostur? Á það til að tala áður en ég hugsa, sem hefur komið í bakið á mér nokkrum sinnum. Á það líka til að vera óþolinmóð en á sama tíma get ég haft frestunaráráttu. Þessi blanda orsakar oft áhugaverðar umræður í kollinum á mér.

Hvernig er þinn tónlistarsmekkur? Ég hlusta aðallega á þungarokk og þá melósískan black metal og Doom metal. En ég á það líka til að hlusta á rólega píanótónlist og létt rokk og popp. Góð tónlist er góð tónlist, sama hvar hún flokkast í kerfinu.

Hvað var í tísku þegar þú varst yngri en er það ekki lengur? Fatatískan hefur náttúrlega verið stórkostlega fjölbreytt síðustu þrjátíu ár, maður hefur átt allskonar tímabil í lífinu sem í dag myndu flokkast sem tískuslys. En það gerir það mun skemmtilegra að fletta í gegnum gömul myndaalmbúm.

Hvaða ósið hefur þér reynst erfiðast að hætta? Ég reyki daglega og það er sá ósiður sem ég vil helst af öllu fara að losa mig við. Næst á eftir er óhóflegt súkkulaði át og Pepsi Max drykkja.

Hverju laugstu síðast? Ég hef síðustu ár átt það mottó að ljúga ekki að fólki. Ætli það sé því ekki bara hvít lygi um að einhver matur sem mér hafi verið boðinn hafi verið frábær þegar hann var það kannski ekki. Það er það eina sem mér dettur í hug.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Lambakjöt hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér, þá helst með einhverri góðri rjómaostasósu, og svo auðvitað Pepsi Max og súkkulaði.

Hverjum líkist þú mest? Ég held ég líkist mest mömmu minni og ömmu, allavega að eigin mati. Reyni að innræta í sjálfa mig þeirra bestu kostum.

Hver er versta vinnan sem þú hefur unnið? Ég hef unnið við mjög margt í gegnum árin, finnst samt engin vinna verri en önnur, en þær eru kannski mis hreinlegar. Hef til dæmis unnið í við ræstingar á bar. Ætli það sé ekki sísta starfið í annars fjölbreyttri flóru.

Mesta undur veraldar? Tónlist.

Hvað er í töskunni þinni? Taskan mín hefur oftar en ekki verið kölluð svartholið þar sem þar er ótrúlegt samansafn hluta. Í augnablikinu er ég með tölvu, hleðslutæki, snyrtivörur og allskonar Eistnaflugsdót eins og auka armböndum, rútumiða og kvittanir.

Hver eru þín helstu áhugamál? Bókalestur hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og svo auðvitað tónlistargrúsk. Finnst sérstaklega skemmtilegt að lesa bækur um tónlist og tónlistarmenn, þar næ ég að sameina bæði áhugamál í eitt.

Vínill eða geisladiskur? Ég á orðið ágætis safn af hvorutveggja og á mjög bágt með að gera upp á milli þeirra. Hlusta líklega mjög jafnt á bæði vínill og diska.

Draumastaður í heiminum? Ég hef nú ekki ferðast mikið um heiminn þannig að mínir uppáhaldsstaðir eru báðir á Íslandi. Ég er ættuð af Ströndunum og finnst fátt eins yndislegt og að fara þangað en síðustu ár hafa Austfirðirnir komið sterkir inn. Þannig að ég held að svarið mitt sé Norðfjörður og Norðurfjörður, þeir eru báðir í uppáhaldi, frábært landslag og yndislegt fólk.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Ég kann að meta sanngirni og hreinskilni. Að meta annað fólk að verðleikum og fagna fjölbreytileikanum.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Það er engin ein manneskja sem ég tel vera mína fyrirmynd, ég reyni að læra eitthvað af öllum í kringum mig, hvort sem það eru vinir mínir eða fjölskylda.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Fordómar og mannvonska er eitthvað sem ég væri til í að útrýma úr heiminum. Held að það myndi leysa flest vandamál heimsins.

Ef þú þyrftir að eyða 100 þúsund kalli á klukkutíma, í hvaða verslun færirðu? Ætli ég myndi ekki stökkva inn í Nexus og kaupa bækur og spil.

Topp þrjú á þínum „Bucket list“? Ég er búin að vera dugleg síðustu ár að vinna í listanum mínum og er búin að láta margt rætast sem var þar. Meðal annars var þar að vinna við tónlist og hljómleikahald. Það hefur alltaf verið ofarlega á listanum mínum að heimsækja fleiri lönd í Evrópu og fara á risastórar tónlistarhátíðir, það rætist úr því í ágúst þegar ég fer til Tékklands á Brutal Assault hátíðina sem er haldin þar.

Draumaband á Eistnaflugi? Það er nú eiginlega búið að uppfylla þetta hjá mér þar sem bæði Behemoth og Amorphis sem hafa lengi verið í uppáhaldi eru búnar að spila á Eistnaflugi. En ætli ég bíði ekki næst eftir Lamb of God sem er hljómsveit sem mig hefur lengi langað að sjá á sviðinu í Neskaupstað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar