Tæmdi rafhlöðuna í símanum við að mynda rostunginn

Guðmundur Már Karlsson, íbúi á Djúpavogi, gekk fram á óvæntan gest í Þvottárfjöru í Álftafirði á þriðjudag en myndarlegur rostungur baksaði þar við að komast upp á steina. Myndir Guðmundar af dýrinu hafa vakið mikla athygli enda komst hann óvenju nálægt því.

„Ég hef ekki áður séð rostung í svona mikilli nálægð. Ég bjóst við að hann risi upp og baulaði á mig eða færi ef ég nálgaðist, miðað við það sem maður hefur séð um þessi dýr, en það gerði hann ekki,“ segir Guðmundur.

Myndir sem hann tók á dýrinu og setti á Facebook hafa vakið mikla athygli enda komst Guðmundur nálægt dýrinu í langan tíma. „Ég tók örugglega þúsund myndir. Rafhlaðan á símanum mínum var full þegar ég kom og tóm þegar ég fór.“

Guðmundur segist hafa ætlað í gönguferð við Hvalnesvita en ákveðið að fara niður í fjöruna fyrir neðan Þvottá.

„Ég var búinn að ganga um tvo kílómetra þegar ég ég kem upp á hæð og sé niður í víkina. Ég kveikti strax á hvað þetta var þar sem ég sá hann veltast um í flæðarmálinu.

Hann var í skoru á milli tveggja grjótgarða og var að rembast við að komast upp á annan garðinn. Hann var lengi að koma sér þar fyrir, að finna þægilega stellingu til að liggja í, því grjótið var oddhvasst og óslétt.

Ég fór niður í víkina, settist niður og fylgdist með honum. Ég byrjaði í 50 metra fjarlægð en fór alltaf nær og nær. Ég komst í tveggja metra færi við hann.

Hann var rólegur og gæfur og spáði lítið í mér. Ég var hjá honum í tvo tíma og tók myndir. Hann reisti sig við annað slagið til að sjá hvar ég væri en hélt svo áfram að sofa. Hann virtist dauðuppgefinn.“

Guðmundur segist hafa farið daginn eftir til að athuga hvort rostungurinn væri enn á sínum stað en ekki rekist á hann þrátt fyrir talsverða leit.

Í frétt Mbl.is er haft eftir sjávarlíffræðingi að líklega sé rostungurinn innan við þriggja ára gamall, það sjáist á því að hann sé tannlaus. Sennilegast er að hann hafi komið frá Grænlandi.

Myndir: Guðmundur Már Karlsson






Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.