„Það verða yfir 100 nemendur í heildina í sumar“

„Það hefur tekist vel hingað til og er það ástæða þess að ég kem alltaf austur á hverju sumri,“ segir Emelía Antonsdóttir Crivello, en hún verður með dans- og leiklistarnámskeið bæði í Fjarðabyggð og á Fljótsdalshéraði í sumar.


Emelía er meistaranemi í listkennslu frá Listaháskóla Íslands, en hún hefur kennt dans á Egilsstöðum á sumrin undanfarin ellefu ár. Í sumar mun hún einnig standa fyrir námskeiðum í samstarfi við Menningarstofu Fjarðabyggðar og listkennsludeild Listaháskólans, ásamt Ragnhildi Láru Weisshappel, sem einnig er meistaranemi í listkennslu.

„Í sumar kenni ég á mörgum ólíkum námskeiðum“
„Ég byrjaði með fyrsta dansnámskeiðið á Egilsstöðum fyriri ellefu árum, þá nýorðin tvítug, nemandi á nútímalistdansbraut í Klassíska Listdansskólanum. Mig vantaði sumarvinnu og þar sem ég er upphaflega frá Egilsstöðum datt mér í hug að keyra ein austur og halda dansnámskeið. Í dag er ég meistaranemi í listkennslu við Listaháskóla Íslands, en segja má að kennslan fyrir austan hafi verið ástæðan fyrir að ég ákvað að fara þessa leið og sé alls ekki eftir því,“ segir Emelía sem útskrifast í ár með kennsluréttindi á grunn- og framhaldsskólastigi.

Dansstúdíó Emelíu er í dag lítill farandlistdansskóli sem heldur árleg sumarnámskeið á Austurlandi. Emelía segir námskeiðin hafa þróast mikið frá upphafi, frá því að hafa verið ein með tveggja vikna námskeið á Egilsstöðum yfir í að hafa ráðið inn kennara og verið með kennslu víðsvegar um Austurland. 

„Í sumar kenni ég á mörgum ólíkum námskeiðum. Dansstúdíó Emelíu verður á Fljótsdalshéraði og á Fáskrúðsfirði, auk þess sem ég verð með listahóp vinnuskólans á Fljótsdalshéraði í júní. Ég mun einnig vera með leiklistar- og dansnámskeið á Norðfirði og Reyðarfirði.

Fyrsta árið var ég held ég með átta nemendur í heildina. Ég renndi algjörlega blint í sjóinn, þetta óx mjög hratt. Í ár eru nú þegar um 70 nemendur skráðir á dansnámskeið á Fljótsdalshéraði, auk þess sem nemendur í Fjarðabyggð eru að bætast við, þannig að það verða langt yfir 100 nemendur í heildina í sumar.“

„Ég legg alltaf upp með að hafa gaman“
Þetta er í fyrsta skipti sem Ragnhildur Lára er með námskeið á svæðinu. „Ég legg alltaf upp með að hafa gaman og hafa kennsluna frekar frjálsa. Maður lærir ekki ef manni þykir leiðinlegt, maður tekur minna inn, eða ég held það. Ég trúi líka að við lærum mikið hvert af öðru svo ég legg mikla áherslu á samtal og hlustun. Heimurinn væri kannski betri staður ef fólk myndi tala meira saman.

Þetta námskeið er glænýtt og hefur alderi verið prófað áður svo þetta er mjög spennandi, við ætlum að brúa kynslóðabil og komast að því hvað við eigum sameiginlegt, allt í gegnum hið ótrúlega skemmtilega og ófyrirsjáanlega ferli myndlistarinnar.

Ég hlakka mikið til að kynnast krökkunum og fólkinu sem ég mun vinna með og er handviss um að við munum gera eitthvað geggjað saman. Vonandi fæ ég að koma hérna á hverju sumri og halda námskeið.“

„Í draumheimi fengi hvert barn jöfn tækifæri óháð búsetu“
Emelía er ánægð og þakklát fyrir að fá að taka þátt í þessu sívaxandi ævintýri. „Þetta starf er dýrmætt og ég hef fundið fyrir miklum meðbyr. Kennslan á Egilsstöðum er alltaf sérstaklega tilfinninganæm fyrir mér, því þar fæddist ég og ólst upp til 9 ára aldurs. Ef ég hefði ekki flutt í til Reykjavíkur hefði ég aldrei lært dans og líklega ekki leiklist heldur. Sú hugsun knýr mig áfram, í draumheimi fengi hvert barn jöfn tækifæri óháð búsetu.

En það hefur verið mikil uppbygging hérna núna, bæði á Fljótsdalshéraði og í Fjarðabyggð, það er aukin vakning um mikilvægi listar og listkennslu. Þó ég sé að austan finnst mér ekkert sjálfgefið að ég geti komið hingað á sumrin og verið nánast í fullu starfi í tvo mánuði að kenna leiklist og dans.

Það má líka ekki gleyma að nefna að þetta væri ekki hægt án stuðnings og þar koma margir að. Uppbyggingarsjóður Austurlands hefur stutt dyggilega við námskeiðin, sem og Fljótsdalshérað. Í upphafi var Auður Vala hjá fimleikadeild Hattar líka stór þáttur í að þetta byggðist upp eins og það gerði og í ár kemur Menningarstofa Fjarðabyggðar sterkt inn. Hver einasti stuðningur, í hvaða formi sem hann kemur, skiptir sköpum í að svona starf byggist upp,“ segir Emelía sem minnir á að skráning fyrir námskeiðin sé enn opin og hvetur alla til þess að kynna sér málið og skella sér í ævintýrið.

Allar upplýsingar um námskeiðin má sjá hér; 

Skapandi sumarnámskeið fyrir börn. 

Dansstúdíó Emelíu. 


Sumarnámskeið 1200

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.