„Svo er það bara að heilla þjóðina“

„Þetta hefur verið draumur síðan ég veit ekki hvenær,“ segir Eskfirðingurinn Eiríkur Hafdal, sem keppir ásamt félögum sínum í Fókushópnum í fyrri undanúrslitaþætti Söngvakeppninnar á RÚV annað kvöld, með lagið Aldrei gefast upp.


Fókus hópurinn sem samanstendur af 5 söngvurum sem eru Eiríkur Þór Hafdal, Karitas Harpa Davíðsdóttir, Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, Rósa Björg Ómarsdóttir og Sigurjón Örn Böðvarsson.

Lagið er eftir þau Sigurjón Örn Böðvarsson, Rósu Björgu Ómarsdóttur, Michael James Down og Primoz Poglajen. Íslenskur texti er eftir Þórunni Ernu Clausen og auk Þórunnar semur Jonas Gladnikoff enska textann.

Kynntust í Voice Ísland
„Við kynntumst öll þegar við kepptum saman í Voice Ísland og ákváðum eftir það ævintýri að okkur langaði að gera eitthvað saman. Við stofnuðum því Fókushópinn og héldum tónleika í fyrravor og síðasta sumar. Fljótlega kviknaði svo sú hugmynd að prófa að senda lag inn í Júróvisjón og höfðum þá samband við laga og textahöfunda og unnum lagið með þeim.“

Júróvisjón er frábær vettvangur
Eiríkur segir að mikið annríki hafi verið við undirbúning að undanförnu, enda í mörg horn að líta. „Við erum búin að æfa þetta gríðarlega vel og svo erum við búin að vera í viðtölum út um allt, en keppnin er mjög góður stökkpallur fyrir okkur. Júróvisjón er frábær vettvangur, það býr ákveðið júróvisjónnörd inn í mér, en ég hef farið út á keppni sem blaðamaður og alltaf hugsað; ég ætla að standa á þessu sviði einhverntíman. Vonandi tekst það núna, þetta er allaveg fyrsta skrefið, svo er það bara að heilla þjóðina.“

Lagið hefur fengið góða dóma
Sex lög munu keppa um sæti í úrslitaþættinum á laugardaginn. Þrjú þeirra komast áfram og ráðast úrslitin alfarið í símakosningu. „Ég treysti á fyrrverandi nágranna mína þarna fyrir austan. En auðvitað á fólk bara að kjósa það lag sem því finnst best en við munum reyna að skila okkar eins vel og við mögulega getum. Lagið hefur fengið góða dóma, bæði hérlendis og erlendis, það er mjög gaman að því.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar