Orkumálinn 2024

Súrrelískur tökudagur á verðlaunamyndbandi

Markaðsherferðin „Sweatpant Boots“ hlaut nýverið gullverðlaun á alþjóðlegri auglýsingaverðlaunamennsku. Guðný Rós Þórhallsdóttir frá Egilsstöðum leikstýrði tónlistarmyndbandi sem var hornsteinn herferðarinnar.

„Mér finnst geggjað að hafa fengið þessi verðlaun, ég vissi reyndar ekki af tilnefningunni fyrr en ég fékk skilaboð um að við hefðum unnið,“ segir Guðný Rós.

Herferðin fékk verðlaun í flokknum „Davíð gegn Golíat“ á Effie-verðlaunahátíðinni í Bandaríkjunum og í flokki herferða með lítið fjármagn. Í tilkynningu frá Íslandsstofu, sem hélt utan um herferðina, segir að um sé að ræða eftirsótt fagverðlaun sem veitt séu fyrir árangursríka markaðssetningu og aðeins veitt herferðum sem sýnt fram á framúrskarandi árangurstölur.

Herferðin gekk út á að bjóða ferðafólki að mæta með joggingbuxurnar, sem það hafði klæðst í faraldrinum í búð í miðborg Reykjavíkur og fá þær endurunnar í gönguskó. Um 62 milljónir horfðu á myndband herferðarinnar sem Guðný Rós leikstýrði.

Guðný útskýrir að grunnurinn að myndbandinu og herferðinni hafi verið lagður í samtali Íslandsstofu og auglýsingastofuna Peel. Auglýsingastofan hafi síðan kallað eftir hugmyndum að leikstjórum frá framleiðslufyrirtækjum og í gegnum Skot Productions varð Guðný Rós fyrir valinu.

Hún setti síðan sitt mark á auglýsinguna. „Ferlið var skemmtilegt. Við unnum mikið í fjarvinnu. Ég var í öðru verkefni þannig að á kvöldin átti ég fundi með þeim sem komu að verkefninu frá Bandaríkjunum.“

Arabískur prins og fólk í joggingbuxum

Myndbandið sjálft er síðan tekið við nokkra þekkta staði hérlendis, meðal annars við eldgosið í Fagradalsfjalli. Tökudagurinn sjálfur varð eftirminnilegur.

„Tökurnar voru skemmtilegar enda við með gott lið og leikara. Dagurinn sem við tókum á gossvæðinu var hápunkturinn. Þar sem hraun hafði runnið yfir göngustíginn upp á útsýnissvæðið flugum við þangað með þyrlu.

Þar voru tvær þyrlur, annars vegar okkar, hins vegar frá arabískum prinsi. Við blöstuðum laginu okkar til að koma leikurunum okkar í gírinn. Prinsinn stóð til hliðar en með honum var lítið barn sem dillaði sér við lagið og horfði á okkur en síður eldgosið. Síðan mættum við Janet Jackson við Kleifarvatn þannig þetta var súrrealískur dagur,“ segir Guðný Rós.

„Síðan létum við leikarana dansa á hinum ýmsum stöðum, meðal annars í miðborg Reykjavíkur, með lagið í botni. Þannig fékk fólk lagið á heilann löngu áður en það kom út.“

Guðný Rós hefur komið víða við á stuttum ferli, meðal annars stýrt myndböndum við lög Daða og Gagnamagnsins fyrir Evrópusöngvakeppnina sem dró að sér athygli stórleikarans Russel Crowe. Hún vinnur nú að handriti fyrir sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd. 

Fleiri tengsl austur

Guðný Rós var ekki eini Austfirðingurinn sem kom að herferðinni. Yfirmaður markaðsaðgerða hjá Íslandsstofu er Sveinn Birkir Björnsson, alinn upp í Fellabæ og Magnús Magnússon, stofnandi Peel, var á sumrin hjá ömmu sinni og afa í Sauðhaga 2 á Völlum.

Þá fékk herferðin einnig gullverðlaun í flokknum „Global Content“ á PR Week Global Awards.

 


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.