„Sumarið hefur komið skemmtilega á óvart“

Þegar Elí Þór Vídó ákvað að eyða sumrinu austur á landi við að hjálpa mömmu sinni að koma sér fyrir óraði hann ekki fyrir því að hann yrði hér enn sex árum síðar, búinn að festa rætur og á kafi í fjölbreyttum fyrirtækjarekstri.

„Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík, en á allar mínar ættir að rekja til Vestmannaeyja. Upprunalega ætlaði ég að skreppa austur í sumarfríinu mínu árið 2014 og hjálpa mömmu og þáverandi sambýlismanni hennar að gera upp íbúðarhús. Stuttu áður en ég fór var síðan fyrirtækinu sem ég vann hjá lokað og ég fékk uppsagnarbréf svo ég tók þá ákvörðun að vera bara hér yfir sumarið, borgarbarnið sem hafði aldrei eftir að ég komst til vits og ára farið austur á land. Ég ákvað síðan að prófa einn vetur á Egilsstöðum og allt í einu eru liðin sex ár, og ég hér enn.“

Það er auðséð að Elí fellur ágætlega að vera með mörg járn í eldinum. Nýjustu verkefnin eru rekstur á afþreyingu fyrir ferðafólk í Hallormsstaðarskógi.


Axarköst en ekki axarsköft

„Það æxlaðist þannig að í fyrrasumar fékk ég vinnu hjá East Highlanders sem leiðsögumaður, en fyrirtækið er með fjórhjólaferðir í skóginum. Ég fór í það, meðfram öðru, en þegar leið á sumarið fór þáverandi aðaleigandi að færa það í tal hvort ég vildi ekki bara kaupa reksturinn. Við gengum síðan frá kaupunum í desember í fyrra, og svona rétt upp úr því kom Covid-19!“

Í verkefnaleysinu sem því fylgdi kom sér vel að Elí er athafnamaður, í þess orðs eiginlegu merkingu, og þolir illa að sitja og gera ekki neitt. „Ég endaði á að bæta við annarri gerð afþreyingar, sem er axarkast.“

Eins og nafnið gefur til kynna gengur það út á að kasta öxum í þar til gerð skotmörk. Að sögn þeirra sem til þekkja er þetta lítið meira krefjandi en fara í keilu, en er utandyra og fer vel inni í skóginum. Elí segir þessu hafa verið vel tekið, einkum af fyrirtækja- og vinahópum af svæðinu. Þá sé íslenskt ferðafólk duglegt að kaupa fjórhjólaferðir og sumarið hafi því komið skemmtilega á óvart.


Óvænt dyravörður í dagvinnu

En eitt fyrirtæki er ekki nóg. Elí stofnaði einnig og rekur, ásamt Lilju Björnsdóttur, Dyravarðaþjónustu Austurlands.

„Þegar við fórum af stað áætluðum við að fá 3-4 verkefni frá mars og til áramóta. Við enduðum með 24 verkefni, allar árshátíðir og langflesta dansleiki. Við hefðum aldrei getað ráðið við þetta nema með þátttöku fólks sem vant er að vinna við þetta og var tilbúið að gera það með okkur.

Verkefni dyravarðaþjónustunnar hafa ekki aðeins verið fleiri en það sem búist var við í upphafi heldur líka fjölbreyttari og teygt sig yfir á svið sem Elí segist ekki hafa búist við að sjá gerast.

„Það sem maður gat ekki séð fyrir er að undanfarna mánuði hefur maður stundum verið dyravörður í dagvinnu. Við tókum að okkur talningu inn í matvöruverslanir á svæðinu og einnig vorum við fengin til að vinna á kjörstað við forsetakosningarnar. Þetta er eitthvað sem ég sá ekki fyrir þegar við stofnuðum fyrirtækið og maður er þakklátur fyrir hvert einasta tækifæri og hvert einasta verkefni.“

 

Elí Þór Vídó, eigandi East Highlanders, í Hallormsstaðarskógi. Mynd: Aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.