SúEllen barst nafnlaus sending frá Akureyri

„Í kjölfar auglýsingar um tónleika okkar í Bæjarbíó Hafnarfirði næskomandi helgi barst mér ómerkt sending í pósti sem innihélt videospólu með fyrsta myndbandi sveitarinnar sem við töldum týnt og tröllum gefið,” segir Guðmundur Rafnkell Gíslason, söngvari hljómsveitarinnar SúEllen frá Norðfirði.Myndband við lagið Kona, sem tekið var upp á árið 1991 og meðal annars á tónleikum sveitarinnar á Atlavíkurhátíð, er nú loks komið í leitirnar og inn á Youtube.

„Þetta er okkar fyrsta tónlistarmyndband og þykir okkur öllum mjög vænt um það. Stákurinn sem tók það upp vann á Stöð 2 og stalst til þess að klippa það þar einhverja nóttina, en þá voru slíkar græjur ekki á hverju strái eins og núna. Yfirmaður hans komst að því en það hafði sér enga eftirmála. Myndbandið var svo kannski sýnt tvisvar á RÚV og Stöð 2 og síðan ekki söguna meir, þar til núna. Við leituðum svo að því fyrir nokkrum árum, bæði í safni RÚV og Stöðvar 2 en það fannst aldrei,” segir Guðmundur.


„Þið viljið kannski eiga þetta video”
Það var svo fyrir stuttu að Guðmundi barst dularfullt umslag með póstinum. „Á spólunni var gulur miði sem á stóð; „þið viljið kannski eiga þetta video.” Ekkert meira. Það eina sem við vitum er að umslagið er stimplað frá Akureyri, en sendingin var nafnlaus. Það hefur líklega einhver tekið þetta upp úr Skonrokki á sínum tíma, verið að taka til hjá sér núna, fundið spóluna og viljað koma henni til okkar. Við erum óendanlega þakklátir því við töldum þetta glatað fyrir fullt og allt.”

Hvernig var svo að horfa á myndbandið? „Menn voru frekar feimnir, það verður að segjast. Eftir áhorf erum við þó sammála um að mörg myndbönd frá þessum tíma hafa elst mun verr en þetta, en það er á margan hátt alveg ágætt,” segir Guðmundur.


Öll bestu lögin í Bæjarbíói um helgina
Eins og segir í inngangi blæs SúEllen til tónleika í Bæjarbíói Hafnarfirði á laugardagskvöldið. „Þar ætlum við að spila öll okkar bestu lög. Við spiluðum á 50 ára afmæli Norðfirðingafélagsins í Hörpu í haust og fundum þar mikinn velvilja og áhuga á frekara tónleikahaldi, þannig að nú er tíminn kominn.”

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar