„Street Food“ helgi í undirbúningi á veitingastaðnum Nielsen

„Okkur langaði bara bæði að brydda upp á einhverju nýju og öðruvísi og kannski hugmyndin í og með sú að halda kokkunum okkar á tánum,“ segir Sólveig Edda Bjarnadóttir, einn eigenda og rekstraraðila veitingastaðarins Nielsen á Egilsstöðum.

Föstudaginn 24. mars og laugardaginn 25. mars ætla sælkerarnir hjá Nielsen að bjóða upp á svokallaða „street food“ daga. Þó ekki svo að skilja að á planinu fyrir framan staðinn verði staðsettir matarvagnar sem velflestir setja í samhengi við „street food“ eins og það þekkist erlendis frá og hefur náð útbreiðslu í stærri þéttbýlum hérlendis síðustu árin. Nei, matinn skal elda á einfaldan en öruggan hátt innandyra hjá Nielsen og þurfa áhugasamir að leggja inn pöntun fyrirfram. Ekki verður í boði að banka upp á og fá sér í svanginn sísona.

Að sögn Sólveigar er þetta liður í að breyta til og bjóða svöngum upp á nýja og skemmtilega rétti enda þurfi matseðlar veitingastaða að taka breytingum reglulega til að standast samkeppnina.

„Við höfum lengi annars lagið boðið einhverja sérstaka matseðla sem alla jafna eru ekki í boði fyrir fólkið hér og þetta er hluti af því. Auðvitað væri bráðgaman að vera raunverulega með 20 matarvagna hér fyrir utan en við ætlum að prófa þetta svona og vonum að hugmyndin fari vel í fólk.“

Áhugasamir geta þessa dagana valið úr fjórum mismunandi réttum auk eftirréttar og þeir réttirnir koma úr öllum hugsanlegum áttum. Matseðil má finna á vef Nielsen en panta þarf með fyrirvara.

Sólveig í eldhúsinu á Nielsen á Egilsstöðum. Þar á bæ leita rekstraraðilar alltaf leiða til að brydda upp á einhverju nýju og spennandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.